Ragnar leiddi fyrst hugann að hljóði og áhrifum þess á manninn þegar hann bjó í einbýlishúsi úr timbri. „Það var léleg einangrun á milli hæða og í svefnherberginu var lítið næði fyrir látum neðan úr eldhúsi þegar einhver var að baka eða elda. En í raun slysaðist ég út í þessa grein í verkfræðinámi í Svíþjóð. Námið þar er þverfaglegt og mér bauðst námskeið í hljóðvist sem ég ákvað að sitja fyrir forvitni sakir. Eitt leiddi af öðru og ég útskrifaðist sem hljóðverkfræðingur,“ segir Ragnar.

Maðurinn og hljóðið

Sköpun hljóða hefur fylgt manninum frá örófi alda. „Í Grikklandi til forna gerði Pýþagóras tilraunir með titring í strengjahljóðfærum og tónskala. Þetta eru elstu vísindin, en hann misskildi margt. Svo þróaðist fagið og það sem ég starfa við á sér um 150 ára sögu.“

En hvað með stóru dómkirkjurnar með sinn fallega hljómburð?

„Stóru dómkirkjurnar voru í raun hannaðar með brjóstviti sem kom mönnum ansi langt. Þessi stóru hús voru byggð drottni til dýrðar en ekki til að skapa ákveðna hljóðvist. Hljómburðurinn var aukaafurð sem menn fóru að vinna með og finna út hvernig mætti stýra á ákveðinn hátt, til dæmis með því að breyta formi rýmisins. Upphækkaðir predikunarstólar voru líka byggðir með þaki sem speglaði hljóðið frá prestinum svo það heyrðist betur í honum messa, annars hefði rómur hans horfið í risastóran geim kirkjunnar.

Í dag er flókinn hugbúnaður og ýmsar formúlur á bak við hvert hljóðvistarverkefni sem gerir kleift að stuðla að viðeigandi hljóðvist í rýmum sem eru jafnvel enn í byggingu. Treble Technologies er til dæmis spennandi íslenskt sprotafyrirtæki sem hannar hugbúnað sem býður upp á gagnvirkan sýndarveruleika sem mun nýtast við hönnun á hljóðvist.“

Hljóð og heilsa

Fagið á Íslandi segir Ragnar ekki stórt. Þörfin á hljóðvistarverkfræðingum einskorðist mest við opinberar byggingar eins og skóla og leikskóla, skrifstofur, fjölbýlishús, tónlistarsali, fyrirlestrasali, félagsheimili og íþróttahús.

Hljóðvist snertir mörg ólík svið eins og arkitektúr, verk- og tæknifræði, en hefur líka áhrif á sálræna þáttinn. „Það er misjafnt milli fólks hvernig það upplifir hljóð. Það sem einn upplifir sem gott hljóð getur annar upplifað sem slæmt. Þetta fer eftir aðstæðum og persónu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun hefur lýst yfir að slæm hljóðvist verði næsta stóra heilsuvandamálið sem þurfi að tækla. Þá er litið til hljóðvistar í manngerðu umhverfi varðandi umferðarhljóð, nábýli fólks og fleira.“

Slæm hljóðvist getur haft mikil áhrif á fólk sem dvelur langtímum saman í slíku umhverfi, hvort sem um er að ræða vinnustað, heimili eða annað. „Slæm hljóðvist er lágstemmt langvarandi áreiti sem getur verið mjög þreytandi til lengdar. Slæm hljóðvist getur verið lúmsk því fólk skynjar oft ekki þreytuna fyrr en áreitið er farið. Eins og þegar maður er einhvers staðar þar sem vifta er í gangi. Svo slokknar allt í einu á henni, heilinn kemst í hvíld og maður fattar hve mikil læti voru í viftunni. Þarna viðheldur heilinn viðbragðsstigi, svokölluðu hrökkva eða stökkva ástandi, meðan á áreitinu stendur. Í þessu ástandi hækkar blóðþrýstingur, ákveðin hormón fara út í blóðið sem getur leitt til hjartasjúkdóma, þunglyndis og fleira. Vissulega má fá sér eyrnatappa og loka eyrunum fyrir hljóðáreiti, en við það færirðu ákveðna fórn.“

Fólk er misviðkvæmt fyrir slæmri hljóðvist og segir Ragnar það skipta meginmáli hvað fólk er að gera varðandi hvað hver og einn þolir. „Sjálfur get ég ekki unnið í opnu skrifstofurými. Ég vinn með mikið af flóknum smáatriðum og get ekki einbeitt mér ef einhver nálægt mér þarf til dæmis að vera í símanum allan daginn. Tónlistarmenn þurfa aftur á móti að vinna með öðrum tónlistarmönnum í rými og þeir þurfa að heyra hver í öðrum. Svo getur þetta snúist algerlega við hjá fólki. Eitthvað gerist og fólk hættir allt í einu að þola hljóð. Þetta getur verið nátengt sálrænum þáttum hjá fólki og er mjög persónubundið. Svo er einfaldlega til fólk sem er með næmari heyrn en aðrir.“

Ég get ekki skilið að nokkrum geti fundist það góð hugmynd að kenna börnum í þannig umhverfi.

Skólar og hljóðvist

„Eitt sinn kom ég inn í nútímalegt grunnskólahúsnæði þar sem nokkrir bekkir voru saman í stóru rými. Börnunum stóð til boða að fá eyrnahlífar lánaðar til þess að geta einbeitt sér. Ég get ekki skilið að nokkrum geti fundist það góð hugmynd að kenna börnum í þannig umhverfi. Börn og fólk með ADHD eiga sérstaklega erfitt með að einbeita sér í svona umhverfi og það getur eyðilagt skólagöngu þeirra.

Eitt verkefni sem mér hefur þótt heppnast hvað best á mínum starfsferli er leikskólinn Álfaborg í Reykholti. Það var óvenjulegt verkefni enda kom ég inn í ferlið mjög snemma, á svipuðum tíma og burðarþolsmenn voru að ákveða staðsetningu steyptra veggja. Það var sveitarstjórnin sem ákvað að hljóðvistin í þessum leikskóla skyldi vera framúrskarandi sem gaf mér óvenjustórt hlutverk. Það er ekki nógu algengt að hljóðverkfræðingar komi svona snemma inn í verkefni á Íslandi. Oft erum við fengin inn á sama tíma og það á að innrétta. Þá er oft orðið of seint að stuðla að viðeigandi hljóðvist. Álfaborg í Reykholti er fyrir vikið bæði fallegt húsnæði og hljóðvistin er svo góð að hún skilar öllum brosandi út í daginn.“

Hvernig þekkjast rými með slæmri hljóðvist frá rýmum með góða eða viðeigandi hljóðvist?

„Þú heyrir það strax þegar þú kemur inn í rými með slæma hljóðvist, ef þú ert að koma úr umhverfi með viðeigandi hljóðvist. Alla jafna eru þessi rými oftast með steyptum veggjum, mikið af gleri, hátt til lofts og vítt á milli veggja. Það er langur ómtími, sem þýðir að það bergmálar mikið í rýminu. Það gerir fólki erfitt að einbeita sér, heyra og taka þátt í samræðum. Slæm hljóðvist getur líka komið utan frá vegna umferðar. Í fjölbýlishúsum er algengt að fólk heyri samtöl eða tónlist á milli íbúða eða hljóð úr lögnum vegna lélegrar einangrunar. Í tilfelli flestra almenningsgarða borgarinnar væri mun skemmtilegra að geta heyrt þytinn í laufinu en að hlusta í sífellu á ærandi niðinn frá flug- og bílaumferð.

Rými með viðeigandi hljóðvist eru öðruvísi. Ímyndaðu þér að þú gangir inn á veitingastað þar sem er fullt af gestum, allir að tala saman, þjónar þjóta um og mikið er um að vera í eldhúsinu. Góð hljóðvist gerir þér kleift að setjast niður með hópnum þínum og tala saman án þess að þurfa að hækka róminn og yfirgnæfa samtalið á næstu borðum. Góð hljóðvist er einfaldlega lífsgæði sem margir fara á mis við.“

Markmið hljóðverkfræðinga er að bjóða upp á viðeigandi hljóðvist á hverjum stað. Þá er svarið ekki alltaf að dempa allt eins og útvarpsstúdíó.

Er hægt að ganga of langt í sköpun hljóðvistar?

„Markmið hljóðverkfræðinga er að bjóða upp á viðeigandi hljóðvist á hverjum stað. Þá er svarið ekki alltaf að dempa allt eins og útvarpsstúdíó. Það þarf að skoða hvert rými í samhengi við þá starfsemi sem þar fer fram. Ég fékk eitt sinn það verkefni að laga hljóðvist í 180 fermetra fyrirlestrasal. Þetta var mjög óvinsæll salur hjá kennurum og nemendum enda heyrði stór hluti nemenda ekki í kennaranum og þeir voru sífellt að biðja kennarann um að hækka róminn. Ég tók eftir því að það var búið að dempa allt loftið í rýminu og byrjaði á því að láta skipta út 25% af dempunarplötum fyrir harðar plötur. Það er ekki byrjað að kenna aftur í salnum en þetta er klárlega skref í rétta átt. Um leið og kennsla hefst er hægt að stilla dempunina betur út frá upplifun notenda.“