Hljóðið á lokarennsli Systra sem lauk fyrir stundu var í góðu lagi. Flutningurinn var lýtalaus og hljóðblöndunin með besta móti.

Í gær flutti Fréttablaðið fréttir af því að hljóð hafi klikkað í dómararennsli. Undirrituð var viðstödd dómararennslið og það var ljóst frá fyrstu sekúndum að eitthvað var ekki eins og það átti að vera.

Mistökin lýstu sér þannig fyrir áhorfendum á staðnum, að röng rödd var „fremst í mixinu,“ og því fóru harmóníurnar, sem einkenna lagið, úr skorðum. Sömuleiðis varð sólókafli Elínar Eyþórsdóttur undir á dómararennslinu, þar sem gleymdist að hækka á réttum stað.

Aðstandendur keppninnar fullyrtu að hljóðið hefði skilað sér rétt til dómara, þrátt fyrir þessi mistök á hljóðblöndun í salnum. Á sama tíma er rétt að taka tillit til þess að Systur heyrðu greinilega að eitthvað var úr lagi, þær sögðust í samtali við RÚV ekki hafa heyrt í hvorri annarri.

Þeir sem ætla sér að horfa á Systur á stóra sviðinu í kvöld þurfa þó að öllum líkindum ekki að hafa neinar áhyggjur, því að eins og fyrr segir, var allt eins og það átti að vera á lokarennslinu sem sent var út í blaðamannahöllinni í Tórínó.

Uppfært:

Að sögn Gísla Gunnars Didriksen, eins bakraddasöngvara Systra, var hljóðið á lokarennslinu með besta móti og sagði hann upplifunina hafa verið allt aðra.