Rið er heiti á sýningu Finnboga Péturssonar í Listasafni Reykjavíkur. Þar eru hljóðbylgjur leiddar í risastóra laug og gárur vatnsins endurkastast á veggi salarins. „Þetta er verk í sama anda sem ég hef verið að vinna í nokkuð mörg ár. Ég byrjaði að vinna svona verk 1989 og sýndi fyrsta verkið 1991 í Nýlistasafninu við Vatnsstíg. Í þessum verkum hef ég verið að reyna að gera hljóð sýnileg fyrir áhorfandann,“ segir Finnbogi.

Dáleiðandi ró

Í lauginni eru rúm átta tonn af vatni og Finnbogi setti einnig í hana einn lítra af teiknibleki sem hann segir skapa hreinni speglun. „Í þessu verki nota ég 3,5 Hz sínustóna. Þeir teikna þrjá hringi á vatnsyfirborðið þar sem þeir blandast saman og til verður mynstur sem sést á veggjunum og er síbreytilegt og aldrei eins. Allt er þetta lýst með tólf ljóskösturum.“

Blaðamaður hefur orð á því að ekki sé annað hægt en að fyllast nánast dáleiðandi ró við að virða fyrir sér verkið. „Það sem ég er að leita eftir í þessum verkum og öðrum er einmitt þessi innri ró. Ég er líka að leita eftir því að fólk setjist niður, gefi sér tíma með verkinu og hugleiði með sjálfu sér,“ segir listamaðurinn.

Musteri og hús

Finnbogi á einnig verkið Yfir og út í Hallgrímskirkju og Ásmundarsal. Hann setti hljóðnema í Hallgrímskirkju og þaðan eru send hljóð yfir í Ásmundarsal. „Ég ætlaði að vinna með anddyri Hallgrímskirkju en sýningin vatt upp á sig því Ásmundarsalur varð hluti af henni,“ segir Finnbogi. „Ég ákvað að gera verk af því tagi sem ég hef oft sýnt í gegnum árin og byggist á því að færa rými á milli staða. Stefán sonur minn smíðaði fyrir mig stóran stálhring sem er í sex metra hæð inni í kirkjunni. Þar eru átta hljóðnemar sem ég beini að höfuðáttunum. Svo fer þetta í gegnum búnað sem flytur þessar átta rásir beint yfir í Ásmundarsal og þar er ég með átta hátalara sem er raðað upp í sambærilegan hring, þannig að til verður lifandi færsla á rými. Kirkja er staður þar sem fólk vandar sig og reynir að hafa eins mikla þögn og mögulegt er og öll lítil hljóð sem myndast þar inni berast út í rýmið og magnast.

Í Ásmundarsal og kirkjunni er ég með í anddyrinu álplötur fyrir húsaklæðningar. Í Ásmundarsal er grá plata en í Hallgrímskirkju eru plöturnar rauð, hvít, græn og fjólublá. Þessir litir eru symbólískir. Grunnhugmyndin að verkinu í kirkjunni snýst um einstaklinginn, manninn og trúna á sjálfan sig og náungann. Þarna er ég líka að vinna með hugmyndina um musteri og hús. Á Íslandi er svo mikilvægt að eignast sitt eigið hús. Fólk vill búa sér sína eigin skel sem er í rauninni framlenging á þeirra eigin skel. Svo koma þarna líka við sögu hringurinn, ferningurinn, andinn og jörðin. Allt tengist þetta saman því geómetrían er gegnumgangandi í trúnni. Ég vil samt ekki gefa of mikið upp um mínar eigin pælingar. Ég vil halda einhverju eftir fyrir áhorfandann því ég ræð mjög litlu um upplifun hans.“