Nýsköpunarfyrirtækið SideWind er í eigu hjónanna Óskars Svavarssonar og Maríu Kristínar Þrastardóttur en þau vinna að þróun umhverfisvænnar lausnar fyrir flutningaskip. Fyrirtækið stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem nýta þann hliðarvind, sem annars færi til spillis á hafi úti, til rafmagnsframleiðslu. „Hugmyndin er að nýta gamla 40 feta gáma sem ekki er hægt að nýta lengur til flutninga, taka úr þeim hliðarnar, koma ákveðinni tegund af vindmyllu lárétt inn í gámana og tengja hana við rafal sem er staðsettur í hverjum gámi,“ segir Óskar, en hugmyndin kviknaði hjá honum fyrir um 35 árum síðan. „Þessir vindmyllugámar eru svo hífðir eins og hver annar gámur sem efsta lag á gámasamstæður flutningaskipa. Þar munu vindtúrbínurnar ná að nýta þá hliðarvinda sem eru á hafi úti. Áhugi er fyrir að nýta túrbínurnar einnig á landi þar sem auðvelt er að flytja þær á milli staða.“

María segir að meðalstórt skip á Íslandi geti sparað 2-300 tonn af olíu á ári með 20 slíkum túrbínum. „Með hækkandi olíuverði hækkar þessi sparnaður í krónum talið. Einnig myndi þetta lækka kolefnisskatta fyrirtækja. Á Íslandi er einnig skattaívílnum fyrir fyrirtæki sem fjárfesta í grænum lausnum þannig að sparnaðurinn er meiri en bara olían sem sparast.“

Byggt á gamalli hugmynd

Hugmyndin fæddist á menntaskólaárum Óskars fyrir um 35 árum, þegar hann var að rökræða við eðlisfræðikennara sinn um þá hugmynd að byrja aftur að nýta vindinn til að knýja skip áfram.

„Hann var nú ekki sammála því og sagði að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það væri til nóg af olíu í heiminum.“ Árið 2018 bað María Óskar um að koma með einhverja sniðuga hugmynd til þess að leggja okkar af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar.

„Þá fór ég aftur að hugsa um hugmyndina frá menntaskólaárunum og hvernig væri hægt að nýta vindinn betur fyrir flutningaskip. Skipin hafa takmarkað pláss fyrir stór segl og því var hugsunin að nýta þá innviði sem væru til staðar og beisla vindinn með það í huga. Við fórum því í að rannsaka hvort þessi hugmynd væri nú þegar til, sem var ekki og sóttum því um einkaleyfi sem við erum komin með á Íslandi og er í vinnslu í öðrum löndum.“

Vindmylla er sett lárétt inn í gám og tengd við rafal sem er staðsettur þar. AÐSEND/SIDEWIND

Fyrsta frumgerðin tilbúin

Í dag er búið að smíða fyrstu frumgerðina sem verður prófuð á landi í haust með Verkís, segir María. „Síðan í framhaldinu verður hún prófuð á flutningaskipi Samskipa. Einnig erum við að fara á fullt í frumgerð tvö sem verður gerð úr endurunnu plasti. Við erum einnig komin í stórt samstarfsverkefni með innlendum og erlendum aðilum sem við segjum frá síðar.“

Stuðningsumhverfið gott

Þau segjast hafa fengið góðar viðtökur alls staðar og allir séu boðnir og búnir til að aðstoða þau. „Við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið styrk frá Tæknirþóunarsjóði til þess að útbúa frumgerðina, en það hefði verið best að fá styrkinn á styttri tíma en tveimur árum. Við þurftum því að hægja á öllu ferlinu til þess að eiga fyrir frumgerðinni. Einnig var mjög hjálplegt að fá aðstoð frá FabLab Reykjavík við að útbúa þrívíddarprentaða frumgerð í 1:20 sem fór í vindgöng hjá Háskólanum í Reykjavík. Þá breyttist þetta úr því að vera hugmynd á blaði yfir í áþreifanlegan hlut.“

SideWind er einnig búið að fá framhaldsstyrk frá Tækniþróunarsjóði til þess að halda áfram með verkefnið næstu tvö árin. „Við vorum einnig valin í átta vikna nýsköpunarhraðal hjá KLAK Icelandic Startups. Þar fengum við góða hjálp í formi fyrirlestra, aðgangi að mentorum, æfingu í að kynna verkefnið og margt fleira. Einnig fórum við með Íslandsstofu til Þýskalands á stærstu orkusýningu í Evrópu og kynntum þar lausnina. Við höfum því góða reynslu af stuðningsumhverfinu á Íslandi.“