Gréta Rut Bjarna­dóttir mun koma til með að hlaupa í Reykja­víkur­mara­þoninu í minningu sonar síns, Hin­riks Leós Ragnars­sonar en Hin­rik fæddist and­vana á síðasta ári og mun Gréta safna á­heitum fyrir styrktar­fé­lagið Gleym-mér-ei. Hún segir fé­lagið hafa reynst sér og Ragnari Braga Sveins­syni, kærasta hennar, gífur­lega vel þegar í ljós kom að Hin­rik myndi fæðast and­vana.

„Gleym-mér-ei reyndist okkur Ragnari rosa­lega vel. Þannig það minnsta sem við getum í rauninni gert er að safna fyrir fé­lagið,“ segir Gréta í sam­tali við Frétta­blaðið. Fé­lagið er til stuðnings við for­eldra sem missa barn á með­göngu og í/eða eftir fæðingu og fengu Gréta og Ragnar minningar­kassa og kæli­vöggu frá fé­laginu.

Að­stoð sem skiptir sköpum

Ragna segir sam­tökin skipta sköpum fyrir for­eldra sem upp­lifi slíkan missi og hefur meðal annars sjálf tekið þátt í að út­búa slíka minningar­kassa handa for­eldrum sem ganga í gegnum slíkt hið sama. Styrkirnir sem safnist í Reykja­víkur­mara­þoninu skipti því miklu máli fyrir sam­tökin.

„Þetta er auð­vitað allt bara sjálf­boða­vinna og það eru for­eldrar sem hafa verið í þessum að­stæðum sem pakka í þessa kassa, sem er auð­vitað bara ó­trú­lega fal­legt og þau vita af því að svo fara þessir kassar til annarra for­eldra sem lenda í þessum að­stæðum,“ segir Gréta.

„Maður fær kassann stuttu eftir and­lát barnsins og það eru minningar­bækur og bangsar og tvennt af öllu. Strákurinn okkar fékk einn bangsa og við fengum einn og svo er hann með arm­band og pabbi hans með arm­band og það er mjög fal­lega staðið að þessu,“ segir Gréta.

„Maður auð­vitað spáir ekkert í þessu þegar maður lendir í þessum að­stæðum. Hvernig maður á að vera í þessum að­stæðum svo þetta hjálpaði manni því­líkt að átta sig á því hvernig maður vill halda utan um þessar minningar,“ segir Gréta. „Það er rosa mikil hjálp í því að þurfa ekki líka að fara að spá í því að kaupa ein­hverjar ljós­mynda­bækur og gera þetta og hitt, heldur bara að fá þetta allt í einum kassa.“

Gréta og Ragnar voru afar þakklát fyrir minningarkassann og kælivögguna.
Fréttablaðið/Aðsend

Mikil­vægt að tala um lífs­reynsluna

Gréta segir spurð að það hjálpi jafn­framt að eiga sér vísan stað þar sem hægt sé að leita til annarra ein­stak­linga sem upp­lifað hafa sama missi. Hún segist varla hafa vitað af sam­tökunum áður en hún og Ragnar misstu Hin­rik.

„Áður en við lentum í þessu hafði maður varla heyrt af þessu. Maður hélt eftir tólf vikur að allt yrði bara í lagi en svo kom í ljós á tuttugustu viku að eitt­hvað væri að. Og svo eftir að maður er opinn með þetta að þá hefur maður heyrt í fleirum í sömu sporum svo þetta er mun al­gengara en maður heldur,“ segir Gréta.

„Allir sem standa að Gleym-mér-ei eru ein­staklingar sem lent hafa í svona missi og það eru allir til staðar fyrir mann. Og það er alltaf gott og dýr­mætt að tala við ein­hvern sem hefur upp­lifað það sama.“

Hægt er að heita á Grétu inni á hennar svæði á vef­síðu Reykja­víkur­mara­þonsins og renna styrkirnir til styrktar­sam­takanna Gley-mér-ei.

Gréta og Ragnar kveðja Hinrik.
Fréttablaðið/Aðsend