Harpa Lind Jósefs­dóttir hleypur í Reykja­víkur­mara­þoninu þann 24. ágúst næst­komandi í minningu föður síns, Jósefs Sigurðs­sonar, en hann lést eftir skamm­vinn veikindi fyrir rúmu ári síðan. Þá hleypur hún einnig fyrir tvo frændur sína sem létust fyrr í sumar. Harpa safnar á­heitum fyrir Nýja dögun, stuðnings­sam­tök vegna sorgar og segir í sam­tali við Frétta­blaðið að sam­tökin hafi reynst sér vel í missinum.

Faðir Hörpu hafði verið á lyfjum vegna blöðru­háls­krabba­meins undan­farin ár en veiktist svo skyndi­lega mikið síðasta sumar. Harpa segir að eftir fimm heim­sóknir á Land­spítalann hafi móðir hennar farið fram á að hann fengi frekari rannsóknir.

„Hann lést svo þann 7. ágúst í fyrra. Hann hafði verið í nokkur ár á lyfjum vegna krabbameinsins en svo veiktist hann mikið síðasta sumar,“ segir Harpa.

„Við fórum fimm sinnum upp á spítala og í fimmta skiptið sagði mamma ein­fald­lega að við ætluðum ekki að fara neitt fyrr en það yrði komist að því hvað væri í gangi,“ segir Harpa. „Svo fór hann í frekari rann­sóknir og þá kom í ljós að meinið hafði dreifst um líkamann og beinin. Svo dó hann bara tíu dögum síðar.“

„Þetta var rosa­legt á­fall. Sér­stak­lega fyrir mig af því að hann var besti vinur minn og við höfðum gert allt saman frá því að ég var lítil,“ segir Harpa. Hún segist hafa leitað sér að­stoðar hjá Nýrri dögun innan við mánuði eftir frá­fall pabba hennar.

Harpa segist hafa gert allt með pabba sínum.
Aðsend mynd/Harpa

Fékk strax að­stoð

„Ég fór innan við mánuði eftir að hann dó. Ég hafði leitað leiða til að komast í gegnum þetta og fann sam­tökin á netinu. Ég hafði sam­band og fékk eigin­lega strax tölvu­póst og tók þátt í hópi fyrir ein­stak­linga sem höfðu orðið fyrir ó­tíma­bærum for­eldramissi,“ segir Harpa.

Hún segir að reynsla sín af starfi sam­takanna sé afar góð en Harpa fór aftur á nám­skeið hjá sam­tökunum í mars á þessu ári. „Ég fór kannski að­eins of snemma til að byrja með en svo fór ég aftur núna í mars og þá fannst mér það bara breyta öllu fyrir mig,“ segir Harpa.

Harpa segist hafa prófað ýmis­legt í sorginni en hún hefur meðal annars leitað til sál­fræðinga en segir að um­rædd nám­skeið hjá Nýrri dögun hafi skipt mestum sköpum.
„Mér fannst ekkert hjálpa mér eins mikið og nám­skeiðið. Það var gott að hitta fólk í sömu að­stæðum og ég,“ segir Harpa.

Hægt er að heita Hörpu inni á hennar svæði á vef­síðu Reykja­víkur­mara­þonsins og renna styrkirnir til Nýrrar dögunar.

Aðsend mynd/Harpa
Aðsend mynd/Harpa