Inga Fanney vann sem fjallaleiðsögumaður frá árinu 2003 en árið 2011, þegar hún var orðin tveggja barna móðir, byrjaði hún að fara í styttri fjallahlaup þar sem hún hafði ekki lengur tíma fyrir lengri fjallgöngur.

„Fjallahlaupin lengdust svo alltaf meir og meir. Þar sem ég hafði verið fjallaleiðsögumaður fannst mér alveg kjörið að prófa að bjóða upp á ferðir hlaupandi í staðinn,“ segir Inga Fanney sem fer reglulega í hlaupaferðir með hópa af fólki.

Inga Fanney fer reglulega í hlaupaferðir með fólki um fjöll í fallegri náttúru.

„Það má segja að hlaupaferðirnar hafi strax slegið í gegn. Í rauninni eru hlaupaferðir svipað uppbyggðar og gönguferðir, nema það er hlaupið á milli staða.“

Þegar Inga Fanney byrjaði með hlaupaferðirnar voru þær ný tegund ferðamennsku hér á landi en hún segir að flestir í ferðunum hennar séu erlendir ferðamenn þótt áhugi Íslendinga á ferðunum hafi aukist.

„Það hafa komið til landsins hlauparar sem hefðu annars valið annan áfangastað en komu hingað þar sem þeir höfðu frétt að hér væri hægt að ferðast hlaupandi.“

Sækir í krefjandi undirlendi

Vinsælustu hlaupaferðir Ingu Fanneyjar eru á Hornströndum og á Grænlandi. En Fanney hefur sjálf hlaupið víða bæði á Íslandi og erlendis.

Inga Fanney hefur hlaupið mikið á Grænlandi. Hér hleypur hún umkringd stórbrotinni náttúrunni á Austur-Grænlandi. MYND/STEVE CHRAPCHYNSKI

„Ég hef skipulagt og farið í hlaupaferðir á Spáni og Bretlandi. Ég bjó á Spáni um tíma og það er alltaf dálítið eins og að koma heim að koma þangað. Það er líka mjög mikil fjallahlaupamenning þar, sérstaklega í Katalóníu. Þar er krefjandi undirlendi sem er svolítið það sem ég sæki í.“

Inga Fanney segist eiga erfitt með að gera upp á milli staða á Íslandi en nefnir að henni finnist mjög gaman að hlaupa í friðlandinu á Hornströndum.

„Þar er svo mikil saga og ég hef gaman af því að fara á milli fjarða um fjallaskörð. Eins hef ég mjög gaman af Dyrfjallahlaupinu fyrir austan. Það er mjög stórbrotin leið, krefjandi og gullfalleg. Það vill svo til að það er einmitt haldið Dyrfjallahlaup 11. júlí í ár.“

Hér hleypur Inga Fanney með hóp á Suður-Grænlandi. MYND/ JALEN PUT

Inga Fanney segir að hún sé alltaf að láta sig dreyma um nýjar leiðir til að hlaupa.

„Mig langar til dæmis mjög mikið til að hlaupa Strandirnar á næstunni. Það er eitthvað extra gaman við að hlaupa á slóðum sem er ekki hægt að komast á nema á fótum, fjarri vegum og byggðum.“