Það þarf engan sérstakan grunn til þess að byrja að hlaupa. Ég æfði aldrei neinar íþróttir að ráði sem krakki og var fjórtán ára þegar ég byrjaði að fara út að hlaupa. Útihlaupin hafa svo alltaf fylgt mér alla tíð síðan,“ segir Þóra.

Skórnir og toppurinn skipta höfuðmáli

Þóra brýnir fyrir byrjendum að réttu skórnir séu afar mikilvægir. „Það er mjög áríðandi að finna réttu skóna sem passa. Það breytir öllu. Regluleg endurnýjun skiptir höfuðmáli líka. Þegar ég á nýja góða skó sem ég er óskaplega ánægð með þá draga þeir mig út að hlaupa. Tilfinningin er alveg geggjuð. En fyrir konur er góður íþróttabrjóstahaldari álíka mikilvægur upp á vellíðan á hlaupum.“

Frábærar hlaupaleiðir rétt við bæjarmörkin

Þóra er eðlilega hrifnari af náttúruhlaupum en útihlaupum í borginni. „Það er dásamlegt hvað við eigum margar góðar hlaupaleiðir hér rétt við bæjarmörkin. Náttúran gefur manni aukaorku og tilfinningin á hlaupunum er ólýsanleg. Helgafellið og nágrenni sem og Heiðmörkin eru dásamleg hlaupasvæði, en mikið er um stikaðar og merktar hlaupaleiðir á þessum svæðum. Ég fór á námskeið hjá Náttúruhlaupum fyrir einhverju síðan til þess að kynnast skemmtilegum hlaupaleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Núna er ég í Landvættaprógramminu hjá Ferðafélagi Íslands og er enn að læra nýjar stórskemmtilegar leiðir sem eru steinsnar í burtu. Þegar ég kemst ekki út í náttúruna að hlaupa þá þykir mér líka voða þægilegt að reima bara á mig skóna og hlaupa hring út frá heimilinu mínu. Þá hleyp ég iðulega meðfram sjónum. Það besta við útihlaupin er útiveran og að finna að maður getur alltaf aðeins meira en síðast. Frelsistilfinningin að geta hlaupið og hreinsað kollinn í leiðinni er ómetanleg. Hlaupin geta framkvæmt lítið kraftaverk þegar maður á slæman dag.“

Stravadólgur út í ystu æsar

Það kemur líklega engum á óvart að hlaupaskórnir fara alltaf með í töskuna hjá Þóru, hvert sem hún fer. „Ég er tiltölulega nýfarin að nota Strava til að skrá alla hreyfingu og hef mjög gaman af því. Vinahópurinn minn kallar það að vera orðinn Strava-dólgur, þegar það er ekki lengur hægt að hreyfa sig nema að það sé skráð þar fyrir aðra að sjá. Ég er líka nýlega farin að safna hlaupaleiðum erlendis sem er frábær leið til að kynnast nýjum borgum, en hlauparar um allan heim eru afar duglegir að deila skemmtilegum leiðum í sínum heimaborgum á Strava.“

Einnig hleypur Þóra allan ársins hring og finnst ekkert verra ef það er vont veður. „Að hlaupa í stormi og úrkomu er geggjuð tilfinning. Ég fer þá oftast styttra ef veðrið er krefjandi en stillt vetrarveður er líka alveg ótrúlega friðsælt. Það að hlaupa með brodda og í ull á veturna eða í hlýrabolnum á sumrin. Bæði er frábært.“