Það er mikið hlýindaskeið á norður- og austurhluta landsins sem hefur ýmis áhrif á daglegt líf. Ein afleiðingin af hitanum er að það verður erfiðara að fara út að hlaupa, en það þarf ekkert að láta hitann skemma fyrir æfingum.

Hitinn þvælist yfirleitt ekki fyrir okkur hérna á Íslandi, en núna er ástandið þannig að víða um land hefur fólk búið við óvenju mikinn hita vikum saman. Í svona hita er auðvitað skemmtilegra að vera úti að hreyfa sig en það getur líka orðið erfiðara að hlaupa í hitanum, sérstaklega þar sem við erum flest vön svalara veðri. Því er mikilvægt að gera ráðstafanir til að stemma stigu við áhrifum hitans.

Líkamsræktarvefurinn Coachmag fékk nýlega nokkur góð ráð varðandi þetta frá þremur sérfræðingum; styrktar- og þrekþjálfara, hlaupaþjálfara og langhlaupara sem hefur keppt í Sahara- og Góbí-eyðimörkunum.

Fyrsta og besta ráðið til að forðast að fara sér að voða í hitanum er einfaldlega að forðast að hlaupa á heitasta tíma dagsins. Annars er hætta á ofþornun, sólbruna, ofhitnun og sólsting. Það er gott að hlaupa snemma á morgnana eða seint á kvöldin til að forðast mesta hitann. Ef það er ekki hægt að hliðra æfingunni til gæti líka verið skynsamlegra að skipta útihlaupi út fyrir sund, hjólreiðar eða hlaup innandyra. En ef fólk vill halda sig við útihlaup eru ýmis ráð sem geta auðveldað það.

Klæðið ykkur rétt

Það er grundvallaratriði að passa að vera með öfluga sólarvörn, því annars er auðvelt að brenna, sem er afar óhollt fyrir húðina. Sólgleraugu eru líka auðvitað staðalbúnaður. Það getur verið freistandi að klæða sig sem minnst, en það borgar sig að hlífa húðinni að einhverju leyti fyrir sólinni, sérstaklega ef það stendur til að hlaupa lengi.

Létt og ljós gerviefni sem drekka í sig svita hjálpa við að lækka líkamshitann og það er betra að forðast stuðningsefni og spandex. Það þarf líka að passa að fötin valdi ekki núningi og þar getur vaselín komið að gagni. Svo getur hlaupahúfa skýlt höfðinu og andlitinu fyrir mestu sólinni og svitaband haldið svitanum frá augunum.

Ekki gleyma söltunum

Ekki gleyma því að það er ekki nóg að drekka vatn til að koma í veg fyrir ofþornun, það þarf líka sölt, sem líkaminn tapar hratt við að svitna. Það er nauðsynlegt að viðhalda þessum söltum til að koma í veg fyrir vöðvakrampa og viðhalda góðri frammistöðu. En hafið í huga að það er líka hættulegt að drekka of mikið. Í miklum hita er best að borða reglulega mat og vatn og drekka líka íþróttadrykki til að viðhalda söltum, frekar en að reyna að drekka mikið magn af vatni í einu.

Forðist krampa

Vöðvakrampar eru oft afleiðing af því að drekka eða borða ekki nóg þannig að ef það er passað vel upp á mataræðið ættu þeir ekki að verða vandamál. Með því að drekka nóg, helst einhvern íþróttadrykk með söltum, eða með því að borða létta máltíð og skola henni niður með vatni tveimur tímum fyrir æfingu ætti að vera hægt að fyrirbyggja þá.

Passið fæturna

Í auknum hita svitna fæturnir meira og því þarf að passa að sokkarnir passi vel og séu í góðu ástandi. Það borgar sig að verja álagssvæði sérstaklega vel og nota plástra til að hindra blöðrumyndun. Það á svo alltaf að reima hlaupaskóna á sig frá botninum og upp þannig að þeir séu þéttir, en þrengi ekki að.

Ekki of kalda sturtu

Eftir æfinguna þarf að teygja og svo fara í volga sturtu til að kæla niður líkamann. Passið að fara ekki í of kalda sturtu, þó að það sé freistandi, því ef kuldinn er of mikill ferðu að skjálfa og við það hækkar líkamshitinn.