„Ég byrjaði að hlaupa í menntaskóla, en mjög ómarkvisst til að byrja með og ég kunni ekkert að æfa hlaup. Ég hélt lengi vel að hvert hlaup þyrfti að vera hraðara en það síðasta, svo það varð fljótlega pínu erfitt að fara út að hlaupa,“ segir Ragnheiður. „Ég fór svo sem betur fer í hlaupahóp ÍR þegar ég flutti í Breiðholtið og þar lærði ég aðeins að æfa hlaup og kynntist frábærum hlaupurum.

Ég byrjaði svo að keppa í utanvegahlaupum árið 2016. Ég fór Laugaveginn í fyrsta skipti árið 2017 og það gekk vel, þrátt fyrir að hafa varla æft utan vega fyrir hlaupið,“ segir Ragnheiður. „Ári síðar keppti ég á HM í utanvegahlaupum fyrir Íslands hönd. Þá kynntist ég frábærum utanvegahlaupurum og náttúruhlaupunum og kolféll í kjölfarið fyrir stígum, brekkum og fjöllum.

Smátt og smátt lengdust hlaupin hjá mér. Ég hljóp 106 kílómetra í Henglinum 2019 og ég hef líka hlaupið 25 og 50 kílómetra þar. Svo ég þekki Hengilshlaupið nokkuð vel og finnst það mjög skemmtilegt,“ segir Ragnheiður. „Árið 2020 hljóp ég líka 128 kílómetra í keppni á Kanarí, svo 161 kílómetri var ekki það mikið stökk.“

Lítill fyrirvari fyrir þátttöku

Ragnheiður segir að þátttakan í Salomon Hengill Ultra hafi ekki verið skipulögð með löngum fyrirvara.

„Ég var búin að vera að æfa fyrir annað hlaup sem átti að vera í lok júní, þar sem hlauparinn hleypur með farangur sinn á bakinu í nokkra daga, en bara ákveðna vegalengd á dag,“ útskýrir hún. „Ég hafði einmitt tekið hörkuæfingu fyrir það hlaup helgina fyrir Hengilinn en á þriðjudegi fékk ég skilaboð um að því hlaupi hefði verið frestað.

Ég hálf hrundi í sófann í vinnunni en tók þá ákvörðun að hlaupa 100 mílur í Henglinum í staðinn, en þá var hlaupið eftir þrjá daga,“ segir Ragnheiður. „Ég var því ekki jafn úthvíld og ég hefði verið ef ég hefði ákveðið þetta fyrr. En þetta átti greinilega að vera svona. Þetta gekk alla vega alveg upp.“

Ragnheiður var glöð þegar hún kom í mark. MYND/ICARUS

Var þessi vegalengd ekki yfirþyrmandi?

„Jú og nei. Ég var búin að klára 128 kílómetra í keppni svo ég vissi að ef ég færi gáfulega ætti ég að geta þetta. Ég ákvað líka að líta jákvætt á að fara nánast sama hringinn þrisvar, frekar en að finnast það fúlt,“ segir Ragnheiður. „Það er fínt að komast í búnaðinn sinn í Hveragerði tvisvar í hlaupinu og þrisvar í Sleggjubeinsskarði.“

Þakklát fyrir allan stuðninginn

Ragnheiður segir að það sé í raun einfalt að klára svona langt hlaup.

„Það gerist bara með því að taka eitt skref í einu, aftur og aftur og aftur. Tíminn líður líka ótrúlega hratt í hlaupi. Það er næstum skrítið,“ segir hún. „En fyrst og fremst þarf að æfa vel fyrir hlaupið. Ég er mjög fegin hvað ég var búin að hlaupa í mörg ár áður en mér datt í hug að fara þessar últra-vegalengdir. Ég er líka þakklát fyrir aðstoð Elísabetar Margeirsdóttur við að æfa fyrir svona hlaup, fyrir að eiga frábæra hlaupafélaga sem hafa lík markmið og fyrir að fjölskyldan styðji mig í þessu.

Hlaupin eru sálfræðimeðferðin mín. Ég er mikið glaðari og betri manneskja þegar ég hleyp. Þegar ég hleyp ein fara lausnir á alls kyns vandamálum í gegnum hugann og þegar ég er í félagsskap hugsar maður um ýmislegt skemmtilegt,“ segir Ragnheiður. „Það er algjör sálfræðitími að hlaupa í félagsskap og sumir hlauparar vita allt of mikið um mig án þess að þekkja mig mikið.“

Blendnar tilfinningar í lokin

Ragnheiður segir að það hafi verið alveg geggjað að koma fyrst kvenna í mark í hlaupinu.

„Ég var virkilega ánægð með mig og glöð og fannst ég koma sterk í mark,“ segir hún. „Um leið hugsaði ég mikið til þeirra hlaupara sem enn voru í brautinni því veðrið uppi á Vörðuskeggja var skelfilegt og ég óskaði þess að allir kæmu heilir niður og gætu klárað sín markmið.“

Ragnheiður getur ekki tekið þátt í hlaupinu í sumar.

„Í sumar verð ég á ferðalagi en ég fer aftur! Ég veit ekki hvort ég fer aftur 100 mílur eða 100 kílómetra en ég fer örugglega aftur 53 kílómetra og 25 kílómetra og svo á ég eftir að prófa 5 og 10 kílómetra brautirnar,“ segir hún.

Það má labba upp brekkurnar

Ragnheiður mælir með því fyrir alla að skrá sig í hlaupahóp.

„Hlauparar eru svo skemmtilegt fólk að það er gaman að kynnast þeim og í hóp lærir maður að æfa hlaup,“ segir hún og bætir við að það þurfi ekki að setja of miklar kröfur á sjálfan sig. „Það má labba upp brekkur. Það má reyndar alltaf labba, bara ef maður skokkar örlítið inn á milli, þá er maður hlaupari.“ ■