Það er mikill hugur í fólki hér í leikhúsinu og eftirvænting. Á síðustu mánuðum höfum við brugðist við aðstæðum og lagað skipulagið að síbreytilegum reglum,“ segir Magnús Geir Þjóðleikhússtjóri. „Þó síðasta ár væri erfitt öllum sviðslistum, því sýningahald hefur verið óheimilt að mestu síðan um miðjan mars, þá höfum við nýtt tímann afskaplega vel. Miklar umbætur hafa orðið á ýmsu í húsinu sjálfu sem áhorfendur hafa ekki enn séð. Það verður ótrúlega gaman að fá að opna dyrnar fyrir þeim á nýjan leik.“

Sterkt innlegg í samfélagið

Nýtt, íslenskt verk verður frumsýnt 22. janúar, að sögn Magnúsar Geirs. Það nefnist Vertu úlfur, er byggt á samnefndri sögu Héðins Unnsteinssonar og fjallar um mann sem glímir við geðsjúkdóma, sjálfan sig og kerfið. „Þetta er sýning sem átti að vera í Kassanum en okkur fannst verkið vera svo sterkt innlegg í þá tíma sem við lifum nú að við ákváðum að flýta uppsetningu og flytja það á stóra sviðið. Sýningin er áhrifarík og lætur engan ósnortinn, er sniðin inn í núgildandi samkomutakmarkanir og kallast á við stöðu mála í heiminum. Björn Thors leikur eina hlutverkið og Unnur Ösp Stefánsdóttir skrifaði leikgerðina og leikstýrir. Valgeir Sigurðsson sér um tónlistina en Emilíana Torrini semur titillag verksins. Elín Hansdóttir er með leikmyndina og Filippía Elísdóttir búninga, þannig að þetta er einvalalið.“

Verkið Vertu úlfur verður frumsýnt á stóra sviðinu 22. janúar, ef allt gengur samkvæmt áætlun. Hér er Björn Thors í hlutverkinu eina.Mynd/Þjóðleikhúsið

Nú um helgina verður sýning fyrir yngstu kynslóðina frumsýnd, Geim-mér-ei sem er sett upp í samstarfi við leikhópinn Miðnætti. „Þetta er falleg sýning fyrir yngsta hóp áhorfenda, okkur hefur tekist að sinna honum í faraldrinum. Þá erum við með fjórar sýningar sem eru að fara í æfingar og við stefnum á að frumsýna fyrir vorið. Benedikt Erlingsson leikstýrir Nashyrningunum, og Ásta, nýtt leikrit sem Ólafur Egill Egilsson skrifar og leikstýrir, það byggir á ævi og höfundarverki Ástu Sigurðardóttur. Harpa Arnardóttir undirbýr sýningu á heillandi, nýju íslensku barnaleikriti sem nefnist Kafbátur, það er eftir Gunnar Eiríksson. Svo stendur undirbúningur sem hæst fyrir kraftmikla stórsýningu á Rómeó og Júlíu Shakespeares í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar. Ég er ekki í vafa um að hún mun tala sterkt til ungs fólks.“

Eitthvað magnað að verða til

COVID-19 hefur vissulega haft áhrif og afleiðingar í Þjóðleikhúsinu eins og annars staðar. Skyldi hafa verið æft með grímur? „Nú mega listamenn á sviði vera í nánd hver við annan án grímna, að hámarki 50 talsins. Sú heimild var ekki til staðar í október og nóvember og það takmarkaði hvað við gátum æft. Við höfum endurskoðað áætlanir jafnóðum í samræmi við tilmæli yfirvalda. Blessunarlega hefur gengið vel og engin smit verið að hrjá okkur. Þegar við máttum taka á móti gestum var það gert með ábyrgum hætti og þannig verður það áfram.“

Þrjár sýningar náðist að setja á svið í haust og frumsýna, Upphaf, Kópavogskróniku og Kardimommubæinn og Magnús Geir kveðst þakklátur fyrir það. „Síðan þurftum við að stoppa en bíðum eftir að geta hafið sýningar á ný. Vorum líka langt komin með að æfa Framúrskarandi vinkonu, stóra og metnaðarfulla sýningu, byggða á bókum Elenu Ferrante, þegar allt stoppaði. Það var auðvitað áfall – en við ákváðum að nýta tímann til að vinna sýninguna enn betur og ekki er vafi á að hún mun njóta þess að hafa fengið svona langan meðgöngutíma. Þetta var lærdómsríkt ferli enda höfum við verið með mikilsvirtan, erlendan leikstjóra, Yael Farber, við stjórnvölinn. Þarna er eitthvað alveg magnað að verða til. Auk þess vorum við svo heppin að Yael var fáanleg til að vera með námskeið fyrir starfandi leikstjóra hér á landi. Hún er frá Suður-Afríku en hefur verið búsett í Kanada og starfar um allan heim, enda eftirsótt.“

Grýla var á tröppunum

Engar hefðbundnar sýningar voru í nóvember og desember, samt var sitthvað að fást við, að sögn Magnúsar Geirs. „Við færðum okkur yfir í samfélagsverkefni sem við töldum að væru verðmæt fyrir þjóðina. Vorum með aðventuvagn sem keyrður var milli dvalarheimila í borginni og víða um land. Þar var skemmt með tónlist, ljóðalestri og gamanmálum. Við buðum skólum í leikhúsið og sýndum tvær ólíkar sýningar, Leitina að jólunum og Ég get, hvora sýningu fjórum sinnum yfir daginn. Við vorum með hljóðleikhús og svo var sett upp barnafjölskyldusýning á tröppum leikhússins á aðventunni, fallegt prógramm með þekktum persónum úr barnaleikritum, jólasveini, Grýlu og fleiru skemmtilegu. Kærkomið fyrir börnin því jólaböll voru fátíð vegna takmarkana. Þetta hefur því verið frjór tími og þó ég ætli ekki að segja að við hefðum kosið þetta ástand, þá gaf það okkur tækifæri til að kanna óþekktar slóðir.“

Margir að skrifa leikrit

Meðal þess sem Magnús Geir kveðst hafa hugað að er undirbúningur fyrir næsta leikár, þróun með höfundum og þess háttar. Skyldi eitthvað vera að fæðast af íslenskum leikritum? „Það er fjöldi nýrra verka í þróun hjá okkur og margt spennandi í farvatninu. Við kölluðum eftir verkum í nýtt Hádegisleikhús og það bárust 249 verk. Eins kölluðum við eftir hugmyndum að nýjum, íslenskum barnaleikverkum í mars með skilafrest í maí, það komu um 150 hugmyndir og sum handrit voru fullbúin, eitt þeirra, Kafbátur, er á dagskrá með vorinu og sex eru í þróun. Einhver þeirra rata á svið á næstu árum. Þannig að það er kraftur og bjartsýni í Þjóðleikhúsinu. Þessir tímar hafa kennt okkur að læra að meta það sem við höfum hingað til tekið sem sjálfsögðum hlut. Nú skulum við njóta þess að fá að koma saman og segja sögur. Við hlökkum til að draga tjöldin frá og hrífa áhorfendur.“