Það er komið á annað ár síðan ég byrjaði í Heilsuborg en þá var ég orðinn of þungur og oft frá vinnu vegna bakverkja og brjóskloss. Ég vildi því létta á skrokknum og uppskera aukinn styrk og þol,“ segir Halldór sem dreif son sinn Hauk með sér á námskeiðið Heilsulausnir.

„Við þurftum báðir á því að halda og Haukur sagði strax já,“ segir Halldór og Haukur tekur heilshugar undir orð föður síns. „Ég var orðinn alltof þungur og skorti bæði þrek og þol. Eftir árið fann ég mikinn mun á mér og allt varð auðveldara. Ég er feginn að pabbi talaði mig inn á þetta því þegar ég var nítján ára keypti ég mánaðarkort í líkams­ræktarstöð á Ísafirði en það átti ekki við mig. Þetta tókst svo í Heilsuborg þótt það hafi tekið smá tíma að koma heilsuræktinni í daglega rútínu. Mér þótti óspennandi tilhugsun að vera einn í ræktinni en nú er hvetjandi að eiga þarna samfundi við pabba.“

Ekki lengur óvinnufær

Halldór og Haukur eru Ísfirðingar en fyrir löngu fluttir í höfuðstaðinn. Halldór hafði aldrei farið inn á líkamsræktarstöð.

„Mér leist strax vel á mig í Heilsuborg,“ segir hann. „Við fengum mjög góðar mótttökur, var vel sagt til og fengum afbragðs þjálfara sem var með okkur í heilt ár og hélt mjög vel utan um okkur. Það kom svo sjálfum mér á óvart hvað mér þótti strax gaman að mæta í tímana og koma mér upp þessari rútínu. Ég sem hafði alltaf talið mér trú um að það hentaði mér ekki að vera í líkamsrækt var farinn að hlakka til hvers einasta tíma. Mér fór líka fljótt að líða betur í skrokknum.“

Haukur hrósar sérstaklega persónulegri þjónustu.

„Í Heilsuborg er gott utanumhald sem hjálpar manni að ná settu marki. Öllum er mætt á sínum forsendum og maður þvælist ekki um einn í reiðileysi heldur standa þjálfaranir mjög vel að þjálfun hvers og eins,“ segir Haukur.

Báðir hafa feðgarnir náð árangri sem stefnt var að.

„Ég hef endurheimt úthald og þol en þó ekki lést mikið. Það er vegna þess að fitan hefur breyst í vöðva og ég lít aðeins öðruvísi út nú en þegar ég byrjaði. Ég er orðinn mun stæltari, sterkari og öflugri og hef heldur ekkert verið úr vinnu vegna bakverkja,“ segir Halldór sem stundum var áður óvinnufær í tíu daga í senn.

Haukur er einnig í skýjunum yfir árangri sínum í Heilsuborg.

„Ég var orðinn vel í yfirþyngd og þótt ég hafi ekki náð þyngdinni eins mikið niður og ég ætlaði mér hef ég misst mikið af fitu og bætt við vöðvum í staðinn, auk þess sem úthald og þrek hefur aukist til muna.“

Mælingarnar hvetjandi

Feðgarnir segja fræðslu, mælingar og æfingar Heilsulausna hafa nýst sér vel í átt að breyttum og betri lífsstíl.

„Mér fannst mjög gott að fá fituprósentu og vöðvamassa mældan til að geta fylgst með framförum. Þótt mig hafi langað til að komast niður í 80 kíló var mér komið í skilning um að það væri óraunhæft markmið nema ég ætlaði að verða mjög horaður í stað þess að verða stæltur. Fræðslan nýttist líka vel í mataræðinu og ég tileinkaði mér strax að borða hreinan og óunninn mat ásamt því að lesa vel í matvælin og velja það sem er ríkt af prótínum. Ég vissi svo ekki að ég mætti borða jafn mikið og mér var ráðlagt og það kom auðvitað ánægjulega á óvart,“ segir Halldór sem hefur einnig gert hreyfingu að virkum lífsstíl og mætir nú klukkustund fyrr í salinn til að lyfta lóðum og hlaupa á bretti áður en hann mætir í tímana.

Haukur segist líka hafa lært margt gagnlegt um mataræði og hreyfingu á fræðslufundum Heilsulausna og í viðtali við hjúkrunarfræðing.

„Mælingar á fituforða og vöðvamassa virkuðu hvetjandi á mig því það hljóp í mig kapp þegar ég sá árangurinn koma í ljós. Það kom mér líka á óvart hversu mikið maður þarf að borða yfir daginn og það var erfitt að venjast því að borða meira en ég var vanur. Ég þurfti að auka prótínneyslu því að vöðvarnir höfðu rýrnað á kolvetnaríku fæðuvali mínu áður fyrr, en þá geymir líkaminn fituna og étur upp vöðvana, eins ósanngjarnt og það nú er,“ segir Haukur og hlær en nú er hann á næringar- og prótínríku fæði til að koma fitu í lóg og stækka vöðvana.

Langhlaup, ekki spretthlaup

Halldór gefur þeim heilræði sem ekki hafa prófað Heilsulausnir.

„Það er aldrei of seint að byrja í líkamsrækt. Nú er ég rúmlega sextugur og þetta virkaði stórvel fyrir mig. Árangurinn lætur ekki á sér standa og hefur verið vonum framar. Það er þó mikilvægt að stunda tímana samviskusamlega, fylgja matarplaninu og gefast ekki upp,“ segir Halldór.

Haukur segist hafa dregið lappirnar að mæta fyrsta kastið en svo hafi honum þótt það skemmtilegt.

„Ég mæli með því að mæta í alla tíma og þrjóskast við að halda út námskeiðið. Það er erfitt til að byrja með en svo finnur maður hversu gott er að hitta æfingafélagana sem allir eru á sínum forsendum og með klæðskerasniðnar æfingar fyrir hvern og einn. Mér fór fljótt að þykja gaman að mæta og hafði mikinn áhuga fyrir æfingum sem þjálfarinn kenndi mér og ég gat bætt við föstu tímana,“ segir Haukur.

Báðir eru á því að ekki dugi að taka breyttan lífsstíl með skyndiáhlaupi.

„Góðir hlutir gerast hægt,“ segir Haukur. „Það tók tíma að venja sig af gömlum ósiðum og breyta mataræðinu en upphaflega hélt ég að það yrði nóg fyrir mig að mæta á námskeiðið og þá yrði allt betra. Ég áttaði mig ekki á hversu mataræðið leikur stórt hlutverk. Maður hættir þó ekki öllu í einu, annars er hætta á að maður falli í sama gamla farið. Til að ná varanlegum árangri og tileinka sér nýjan og betri lífsstíl þarf að gera þetta með þessu lagi.“

Halldór segir langhlaup en ekki spretthlaup að breyta um lífsstíl.

„Vegna Heilsuborgar er ég nú í góðu formi og betra líkamlegu ástandi en ég var fyrir tuttugu árum. Það þarf að vanda sig og gera hlutina rétt til að ná árangri, en best finnst mér hvað þjálfarar Heilsuborgar hvetja mann til dáða og halda vel utan um einstaklingana í hóp.“

Þeir feðgar segja andrúmsloftið í Heilsuborg létt og skemmtilegt, starfsfólkið frábært og móttökurnar notalegar og fagmannlegar.

„Heilsuborg er fyrir alla sem vilja breyta lífsstílnum, laga heilsuna og bæta líkamlegt ástand,“ segir Halldór. „Ég er í öruggum höndum í Heilsuborg út af starfsfólkinu. Mér finnst allt sem ég geri og okkur er kennt vera rétt og ber fullkomið traust til starfsfólksins. Ég leitaði líka liðsinnis sjúkraþjálfara Heilsuborgar í upphafi og það varð til þess að ég losnaði við bakverkina.“

Haukur upplifir sig líka í traustum og góðum höndum í Heilsuborg.

„Mér finnst ég öruggur því í Heilsuborg starfar faglært heilbrigðisstarfsfólk, læknar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar og fleiri sem geta gripið inn í ef eitthvað amar að. Það er svo um að gera að hafa gaman af heilsuræktinni því þá verður svo skemmtilegt að mæta í tímana og finna árangurinn, hvernig maður vex og verður öflugri,“ segir Haukur.

Hlutirnir gerast í Heilsuborg

Halldór og Haukur eru hvergi nærri hættir að rækta líkama og sál í Heilsuborg.

„Ég hlakka til hvers dags í Heilsuborg,“ segir Halldór. „Það er frábært að æfa með syni sínum en Haukur er mjög svo samviskusamur og ég efa að margir hafi mætt nánast 100 prósent í tímana í meira en heilt ár. Þetta styrkir samband okkar feðga og hressir upp á umræðuefnið þegar við hittumst utan Heilsuborgar, að spjalla um æfingarnar og fleira gott og uppbyggjandi.“

Haukur er sammála hverju orði.

„Við pabbi höfum alltaf verið miklir mátar en nú hittumst við oftar við æfingar og það er virkilega gaman og fínt. Við peppum hvor annan upp í ræktinni en líka í fjölskylduveislum að tapa okkur ekki í kræsingunum,“ segir hann hlæjandi. „Verkinu er hvergi nærri lokið. Við höldum áfram að ná markmiðum okkar í Heilsuborg. Þar gerast hlutirnir.“

Næstu námskeið hefjast 29. október. Allar nánari upplýsingar er að finna á heilsuborg.is/heilsulausnir/ eða í síma 560 1010.

Hvernig er hægt að léttast og halda árangrinum?

Kúrar eru ekki líklegir til að halda kílóunum í burtu,“ segir Erla Gerður Sveinsdóttir, yfirlæknir Heilsuborgar.

Hún segir fjölda Íslendinga hafa prófað alls kyns kúra í viðleitni sinni til að léttast.

„Þegar kemur að langtíma árangri er í raun enginn munur á öllum þessum kúrum, hvaða nafni sem þeir nefnast. Staðreyndin er sú að það er ekki sérstaklega mikið mál að taka sér tak í einhvern tíma. Fólk getur náð prýðilegum árangri, en aðeins í þann tíma sem fólk nennir að fylgja kúrum.“

Megrun og sjálfsásökun

Erla Gerður segir marga hafa prófað hina ýmsu kúra með misgóðum árangri en svo fari allt í sama farið og kílóin verði jafnvel enn fleiri en áður.

„Þess vegna finnst fólki það þurfa að byrja upp á nýtt, aftur og aftur. Flestir upplifa að þetta sé þeim sjálfum að kenna, að þeir hefðu átt að vera staðfastari og að þeir hafi klúðrað málum. Afleiðingin er streita og skömm yfir því að hafa ekki staðið sig,“ segir Erla Gerður.

Reyndin sé sú að kúrar og átök til skemmri tíma séu dæmd til að mistakast.

„Það er vegna þess að auðvitað getur enginn verið á einhverjum kúr til æviloka. Sú leið sem hægt er að halda áfram með í daglega lífinu er það sem skiptir máli til lengri tíma litið. Þess vegna þurfum við að æfa okkur í þeim lífsstíl sem við ætlum að verða góð í. Kúrarnir geta jafnvel orðið skaðlegir á þann hátt að líkamsstarfsemin breytist, til dæmis að vöðvar brotni niður og hægist á brennslunni,“ segir Erla Gerður.

Árangur sem endist

Á námskeiðinu Heilsulausnum eru engar töfraformúlur.

„Þar kennum við margprófaðar leiðir til að léttast og styrkjast og láta árangurinn endast út í lífið,“ segir Erla Gerður.

Heilsulausnir eru vinsælasta námskeið Heilsuborgar og hafa nú þegar 4.000 manns nýtt sér það með góðum árangri.

„Í Heilsulausnum er unnið með marga þætti í einu undir handleiðslu fagfólks. Námskeiðið er ýmist 6 eða 12 mánuðir og ástæðan sú að fólk þarf að fá tíma til að finna út hvað hentar því sjálfu og festa síðan breytingarnar í sessi í hinu daglega lífi. Þátttakendur eru ólíkir og á ólíkum stað í lífinu, en í Heilsulausnum er tekið á móti þeim með virðingu og skilningi og aðstoð veitt til að hver og einn finni sinn takt.“

Sjáðu hvað er innifalið í Heilsulausnum:

Þjálfun í hóp undir leiðsögn íþróttafræðings þrisvar í viku.

20 mínútna upphafsviðtal hjá hjúkrunarfræðingi.

20 mínútna upphafsviðtal hjá íþróttafræðingi.

Reglulegar mælingar á líkamssamsetningu.

Einstaklingsbundnar ráðleggingar hjúkrunarfræðings.

Fjölbreytt fræðsla og umræður á tveggja vikna fresti.

Fræðsla um þyngdarstjórnun og næringu.

Skoðun áhættuþátta heilsunnar og ráðleggingar.

Heilræði um matseld, uppskriftir og smakk.

Hvatning og hugmyndir um hentuga hreyfingu í dagsins önn.

Opnir mælingatímar og reglulegir símatímar hjá hjúkrunarfræðingi.

Myndbönd og pistlar.

Stuðningur í lokuðum hópum á Facebook.

Sidekick-heilsuforritið, kennsla og stuðningur.

Aðgangur að líkamsræktinni, opnum tímum og opnum fyrirlestrum Heilsuborgar.