Sindri Vest, birti í vikunni mynd­skeið af ó­heppi­legu, en fyndnu, at­viki sem átti sér stað í Sel­ja­kirkju fyrir rúmu ári síðan af mann­eskju í kanínu­búning með bein­stífa rófu framan á sér.

At­vikið var tekið upp á atburði sem haldinn var í tilefni af ösku­degi í fyrra í sunnu­daga­skólanum og þótti mörgum for­eldrum at­vikið mjög fyndið. Mynd­bandið hefur verið á fleygi­ferð á sam­fé­lags­miðlum í liðinni viku mörgum til mikillar skemmtunar.

„Ég tók Snap-ið þá og fannst það fyndið, en fékk þetta svo í „memories“ í vikunni og fannst það enn fyndnara þá,“ segir Sindri Vest í sam­tali við Frétta­blaðið

Hann segir að enginn hafi fattað að stöðva at­riðið eða að fá kanínuna til að snúa búningnum við en eins og sést vel í mynd­bandinu þá er rófan eða dindillinn á kanínunni að framan, en ekki að aftan, og virðist hún því vera með reður.

„Börnin auð­vitað föttuðu ekki neitt, það var full­orðna fólkið sem var að hlæja,“ segir Sindri.

Hann segir að mynd­bandið hafi fengið alveg feiki­lega góðar við­tökur og að það sé með tug­þúsunda á­horf og margar at­huga­semdir á bæði Face­book og TikTok.

„Þetta fer hratt,“ segir Sindri.

Hann segir að þau hafi verið tíðir gestir í sunnu­daga­skólanum í Sel­ja­kirkju en hafi hætt að mæta vegna CO­VID-19. Hann segir að at­vikið muni ekki stöðva hann og fjöl­skylduna í að fara þangað aftur.

„Þetta er skemmti­legt fyrir börnin og í þetta skiptið var það skemmti­legt fyrir full­orðna fólkið líka,“ segir Sindri og hlær.

Sr. Ólafur Jóhann Borg­þórs­son er prestur í Sel­ja­kirkju. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af atvikinu og segir það algerlega óvart.
Fréttablaðið/Auðunn

Fór ekki fyrir brjóstið á neinum

Sr. Ólafur Jóhann Borg­þórs­son, prestur í Sel­ja­kirkju, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þau hafi séð mynd­bandið og þótt það hlægi­legt.

„Þetta var dagur sem allir máttu koma í búningum og starfs­maðurinn var í þessum búning. Þetta var að sjálf­sögðu ekki með­vitað, heldur alveg ó­vart. Hún fór i hann ó­vart með þessum hlægi­legu af­leiðingum,“ segir Ólafur Jóhann.

Hann segir að hann viti ekki til þess að at­vikið hafi farið fyrir brjóstið á neinum.

„Ég held að börnin hafi ekki spáð í þetta en full­orðna fólkið tók upp símann og sá á­stæðu til að mynda þetta,“ segir Óli sem segir að hann hafi ekki sjálfur verið við­staddur en að hann hafi fengið mynd­bandið sent á Snapchat á sínum tíma.

Hann segir að sunnu­dags­skóla­starfið sé komið á fullt aftur og að það séu allir vel­komnir

„Það er líf og fjör, en engir búningar eins og,“ segir Ólafur.

Myndbandið má sjá hér að neðan.