Árshátíðarmyndbönd hjúkrunarnema vekja ávallt mikla athygli á ári hverju, þá sérstaklega fyrir tónlistarmyndböndin sem þar birtast. Árshátíð hjúkrunarnema HÍ fór fram í gærkvöldi þar sem nýjasta myndbandið var frumsýnt. Opnunarlagið að þessu sinni var ábreiða af lagi Friðriks Dórs, Til í allt, þar sem hjúkrunarnemar lýsa því yfir að þeir séu til í vakt.

Í upphafi myndbandsins fær hjúkrunarnemi skilaboð um að það vanti nauðsynlega einhvern á kvöldvakt. Nemarnir eru að sjálfsögðu til í vakt en gera óspart grín að álaginu á spítalanum og störfum hjúkrunarfræðinga.

Einn hjúkrunarnemi sést sofa í hillu í língeymslunni, aðrir hjúkrunarnemarnir lifa á Nocco til að komast í gegnum langa vakt og að lokum endar einn í slag við Jón Magnús Kristjánsson yfirlækni eftir að hafa hellt hægðalosandi lyfi yfir sérfræðing.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið.