Friðhelgi einkalífsins verður ekki í hávegum höfð í næstu þáttaröð Keeping up with the Kardashians ef marka má heimildis E News. Á miðlinum kemur fram að næsta þáttaröð, sem er jafnframt sú síðasta, muni fjalla að miklu leyti um hjónabandserfiðleika Kim Kardashian og Kanye West.

„Kardashian fjölskyldan ætlar að yfirgefa skjáinn með látum,“ segir heimildarmaður E News. „Það er búið að taka Kim upp þar sem hún ræðir vandamálin í hjónabandinu en allir sem taka þátt hafa skrifað undir trúnaðarsamning.“

Nýlega rataði það í alla helstu fjölmiðla heimsins að stjörnuhjónin Kim og Kanye væru á barmi skilnaðar. Kim er sögð vera búin að draga upp skilmála skilnaðsins með lögmanni sínum en hvorki Kim né Kanye hafa talað um skilnaðinn opinberlega.

Nýjustu fréttir herma einnig að hjónin hafi gefið hjónabandsráðgjöf endanlega upp á bátinn þar sem þau vilji ekki sömu hlutina úr lífinu. Kanye vill flytja fjölskylduna á búgarð sinn í Wyoming en Kim vill að fjölskyldan dvelji áfram í Kaliforníu.

Kim opnaði sig nýlega um erfiðleikana sem fylgja geðhvarfasýki Kanye og sagði það hafa tekið á fjölskylduna að glíma við sjúkdóminn. Þá hafa borist orðrómar úr herbúðum Kanye að hann sé löngu komin með nóg af fjölskyldu Kim og raunveruleikaþáttunum KUWTK.

Hjónin hafa verið gift um sjö ára skeið og eiga þau saman börnin North, Saint, Chicago og Psalm.