Í dag afhentu þátttakendur, aðstandendur og velunnarar Team Rynkeby Ísland Umhyggju – félagi langveikra barna 35 milljónir sem er söfnunarfé árlegrar söfnunarferðar þeirra.

„Þetta er magnaður lokapunktur í verkefni þessa árs. Stærsta upphæðin til þessa, sem nú leggst ofan á þær 103 milljónir sem verkefnið hefur nú þegar safnað frá 2017. Við erum þakklát öllum, hjólreiðamönnum, aðstoðarfólki og styrktar aðilum,“ segir Guðmundur S. Jónsson einn af skipuleggjendum og bakhjörlum verkefnisins síðan 2017.

Í tilkynningu kemur fram að undanfarið ár hafi Team Rynkeby Ísland hjólað bæði innanlands sem utan í þeim tilgangi að safna fé til handa langveikum börnum á Íslandi og að hópurinn sem stendur að Team Rynkeby sé orðin einn stærsti velgjörðarsjóður í baklandi þeirra sem standa næst langveikum börnum á Íslandi.

Í júlí hjólaði liðið á einni viku frá Kolding í Danmörku til Parísar í Frakklandi, alls 1.300 kílómetra. Liðið skipaði 41 hjólreiðamaður auk tíu manna fylgdar-og aðstoðarlið. Um það bil ársundirbúningur er að hverju verkefni. Þá kemur fram að hjólreiðamennirnir eru á ýmsum aldri og höfðu margir þeirra aldrei sest á götuhjól í upphafi undirbúningstímabilsins en öll með það markmið að láta gott af sér leiða.

Team Rynkeby er eitt stærsta góðgerðarverkefni Evrópu sem samanstendur af 2.400 hjólreiðamönnum og 550 aðstoðarmönnum sem skipa 65 lið frá 9 löndum. Öll liðin hjóla árlega frá Kolding í Danmörku til Parísar í Frakklandi og safna fé til handa langveikum börnum. Þátttakendur standa sjálfir straum af öllum kostnaði sem til fellur og rennur söfnunarféð því beint til málstaðarins. Team Rynkeby Ísland styður við Umhyggju – félag langveikra barna, en söfnunarféð er eyrnamerkt rannsóknum á alvarlegum sjúkdómum barna.

Teymið saman.
Mynd/Aðsend