Hjóla­hvíslarinn Bjart­mar Leós­son datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar hann vann 300 þúsund krónur í Happdrætti DAS.

Mikið er um reiðhjólaþjófnað á höfuðborgarsvæðinu og er talið að í mörgum tilfellum sé um að ræða skipulagða glæpastarfsemi. Síðustu mánuði hefur Bjart­mar fundið á tugi stolinna reiðhjóla og stuðlað að því að koma þeim í réttar hendur. „Þetta vatt dálítið hratt upp á sig,“ segir Bjartmar í samtali við Fréttablaðið. „Þetta byrjaði á einu skipti, svo öðru og svo var þetta allt komið á fullt.“

Bjart­mar hefur aldrei gert kröfu um fundarlaun, en segir þau vissulega velkomin vilji fólk launa honum. Hefur hann þá fullan skilning að fjárhagur fólks sé misjafn. „Fólk hefur alveg sagt við mig að ég ætti að krefjast fundarlauna, ég kann ekki við það,“ segir hann. „Ég á erfitt með að horfa upp á þetta og gæti ekki farið sáttur að sofa ef ég labba fram hjá einhverju stolnu hjóli sem ég hefði getað endurheimt.“

Hann fékk send tvö sms-skilaboð á sama tíma frá Happdrættinu um að hann hefði unnið 150 þúsund krónur. Hélt hann að einhver mistök hefðu átt sér stað. „Ég hringdi og spurði hvort ég hefði unnið 150 og fékk svarið nei. Hugsaði að þetta væri týpískt ég. Síðan var þetta tvöfaldur miði og ég vann 300 þúsund. Alveg geggjað.“

Bjartmar segir að hann að hafi lagt hressilega inná karmabankann, nú sé það loksins að skilaði sér. „ Eftir að hafa lagt hressilega inná karmabankann undanfarið, þá kom loksins að því að það skilaði sér,“ segir hann. „Fólk talar um fundarlaun, en hugsa þetta þannig að það komi alltaf eitthvað til baka. Ég á alveg smá rétt á því.“

Hvetur hann svo alla til að taka þátt í að koma hjólum til réttra eiganda með því á skrá sig á síðuna Hjóladót Tapað, fundið eða stolið á Facebook.