Víða eru göngubrýr eða undirgöng undir umferðaræðar og stígar eru lagðir um vinsælar útvistarperlur eins og Elliðaárdal og Ægisíðu.

Sex áningarstaðir eru nú við stígakerfið, þar sem vegfarendur geta kastað mæðinni og notið útsýnis, skoðað göngu- og hjólastígakort fyrir höfuðborgarsvæðið og gripið í nesti.

Staðirnir eru í Nauthólsvík, við Ægisíðu, við Gullinbrú, við Suðurlandsbraut gegnt Mörkinni, í Elliðaárdal og við Ánanaust. Reykjavíkurborg hefur lagt til númerakerfi fyrir stígakerfi höfuðborgarsvæðisins og merkt stíga samkvæmt því.

Reykjavík á röngunni

Hjólaferð um „Reykjavík á röngunni“ er fólgin í því að hjóla um falda göngustíga, þröngar götur, undirgöng og bakgarða. Þessa ferð má útfæra á marga vegu og má sérstaklega nefna bakstíga sem liggja frá Snorrabraut að Hringbraut þó ekki séu þeir samfelldir.

Elliðárdalur er heillandi til hjólreiða og gaman að hjóla yfir brúna sem liggur ofan á stíflunni í Elliðaánum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Reykjavíkurhringur 21 km

Þetta er hjólaleiðin umhverfis Reykjavík vestan Elliðaáa. Hún liggur meðfram Sæbraut, Geirs- og Mýrargötu, Ánanausti, Eiðsgranda, Ægisíðu og um Skerjafjörð og Fossvogsdal. Þetta er fjölfarnasti útivistarstígur landsins og eru stígar og aðbúnaður víðast hvar til mikillar fyrirmyndar. Leiðin er rúmlega 21 km og liggur að mestu meðfram strandlengjunni. Þessa leið er tilvalið að lengja um 5,2 km með því að bæta hjólastíg 10, Seltjarnarneshring, við.

Stígur 4 Kópavogur-Hafnarfjörður

„Bláþráðurinn“ er strandstígurinn um Kársnes í Kópavogi, göturnar Súlunes og Hegranes í Garðabæ, strandstíginn um Arnarnesvog og vestan við Hraunholtsbraut liggur stígurinn meðfram Reykjavíkurvegi og Strandvegi í Hafnarfirði og að álverinu í Straumsvík. Frá Arnarnesvogi tengist hjólastígur 18 sem liggur að Álftanesi.

Hjólað fram hjá nýlegum vita á Sæbrautinni. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Grafarvogur

Í Grafarvogi er meðal annars hægt að hjóla út með Kleppsvík við fjöruborðið. Þar er hægt að skoða höggmyndagarð Hallsteins Sigurðssonar og finna skemmtilega og krókótta hjólaleið sem liggur frá Grafarvogi að Grafarholti.

Styttur borgarinnar

Fáið lista hjá Listasafni Reykjavíkur yfir styttur borgarinnar og skipuleggið hjólatúr til að skoða þær. Skoðið Ásmundarsafn, höggmyndagarðinn við Listasafn Einar Jónssonar við Freyjugötu, Lýðveldisgarðinn við danska sendiráðið, Hljómskálagarðinn, Miklatún og Laugardalinn.

Það er rómantískt að hjóla stíga í skógi vöxnu umhverfi. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Perluferð

Perlan, Suðurhlíð, fram hjá Nesti, eftir Sæbólsbraut, Ásabraut og stíg að Fífuhvammi. Þaðan að Fífunni, undir Fífuhvammsveg og eftir stíg upp Smárana að Nónhæð.

Kaffihúsaferð

Hjólað frá Sprengisandi upp með Elliðaám, að Ártúnsskóla, um Kvíslar og Hálsa yfir í Grafarvog. Þar hjólum við um Foldir og Hamra, Bryggjuhverfið, Sævarhöfða og loks á kaffihús. Vegalengdin er um 13 km og hjólatími um 105 mínútur.

Heimsendi

Hjólað er frá Sprengisandi upp Elliðaárdal og undir Höfðabakka við stífluna. Þaðan er hjólað yfir Vatnsveitubrú, fram hjá Fáki, yfir Dimmu (hjól borin), um Vatnsenda, meðfram Elliðavatni um Þingmannaleið og á Heimsenda.

Heiðmörk og Elliðaárdalur eru sívinsælar hjólaleiðir. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Gamli Kópavogshringurinn

Hjólað er um góðan hjólreiðastíg á Kársnesi með smá viðkomu á Bakkabraut. Hjólað er í gegnum Kópavogsdalinn og í gegnum tvenn undirgöng undir Breiðholtsbraut. Þvera þarf Smiðjuveg en þá er leiðin greið í Fossvogsdalnum. Hjólað er á samfelldum stíg að Snælandsskóla en þaðan þarf að hjóla á rólegu umferðargötunum Víðigrund og Birkigrund að Lundi. Einnig er hægt að nota hjólabrautina í Fossvogsdalnum. Leiðin er 11,6 km.

Til fróðleiks má benda lesendum á heimasíðuna Hjólreiðar.is. Þar gefast fjölmargar hugmyndir að hjólreiðum en tilgangur síðunnar er að efla hjólreiðar á Íslandi með því að auka öryggi með fræðslu og hvetja til hjólreiða með því að kynna kostina, eyða mýtum og ekki síst breyta ímynd hjólreiða.

Heimild: hjolreidar.is