„Þetta ókeypis app er frá alþjóðlegum óháðum samtökum sem heita Citizens Save Lives. Þau skrá niður hjartastuðtæki víðs vegar um heiminn. Við erum tengiliður við þessi samtök og höfum núna skráð tæplega 1.000 hjartastuðtæki á Íslandi inn á vef þeirra sem er þá komið inn á appið,“ segir Ólafur Magnússon, stofnandi og eigandi Donnu, sem er leiðandi fyrirtæki í sölu á búnaði til aðhlynningar og flutnings á slösuðu fólki.

„Þetta virkar þannig að þegar þú hleður appinu niður og opnar það þá sérðu hvar næsta hjartastuðtæki er staðsett í kringum þig. Þarna erum við líka að fara að opna fyrir það að þeir sem hafa lært um notkun á hjartastuðtækjunum og lært skyndihjálp geta skráð sig inn líka.

Fólk getur þá séð líka hvort það er einhver í næsta nágrenni sem getur veitt aðstoð. Þetta virkar líka þannig að ef þú ert að fara eitthvað og vilt vera á „hjarta-öruggum“ stað þá getur þú farið inn á appið og skoðað til dæmis hótel, ferðaþjónustufyrirtæki eða afþreyingarfyrirtæki sem eru með hjartastuðtæki skráð,“ segir Ólafur, sem stofnaði Donna árið 1974.

Geta látið skrá tækin inn

Ólafur segir að allir þeir sem eru með hjartastuðtæki og eru ekki með þau skráð geti haft samband við Donna og látið skrá tækin inn endurgjaldslaust.

„Ég held að það séu hátt í 3.000 hjartastuðtæki sem eru í notkun hér á landi og við hjá Donna höfum selt yfir helming þeirra. Ég er alltaf að reyna að innprenta það í fólk að það eru ekki bara feitir gamlir karlar sem eru í áhættuhópi sem fara í hjartastopp. Við höfum heyrt um íþróttamenn í toppformi sem hafa dottið niður og við getum aldrei vitað hvenær þetta kemur fyrir. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa hjartastuðtæki sem víðast.“

Þeir sem eiga hjartastuðtæki ættu að sækja sér Cisali appið.