„Ég bjó fyrst í nágrenni við Bologna og síðar í Toskana, rétt hjá Flórens í miðju Chianti svæðinu. Það var mikill áhugi á Ítalíu sem gerði það að verkum að ég fluttist þangað til að byrja með og efldist hann enn frekar við að búa þar, taka þátt í daglegu lífi og læra tungumálið betur. Elsta dóttir mín gekk þar í leikskóla og strákurinn minn fæddist á spítalanum í Flórens. Hjartað slær á Ítalíu,“ segir Arnar aðspurður um tengingu sína við Ítalíu.

En Arnar hefur ekki aðeins mikinn áhuga á Ítalíu, heldur einnig á góðum vínum en þetta tvennt fer þó augljóslega vel saman. „Árið 2003 stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki en sérsvið þess var að langmestu leyti matur og vín frá Ítalíu, þó ég hafi flutt inn vörur annars staðar frá.“

Vínin sem Arnar flytur inn eru svokölluð náttúruvín en við gerð þeirra er notaður eins hreinn vínsafi og hugsast getur. Mynd/Aðsend

Byrjaði sem áhugamál

Upphaflega var aðeins um víninnflutning að ræða sem Arnar sinnti sem áhugamáli samhliða tónlistarkennslu. „Síðar bættist matur við og fyrirtækið varð á endanum að versluninni Frú Laugu. Í Frú Laugu voru innfluttu vörurnar mínar seldar í bland við íslenskar, beint frá bónda, þar sem rekjanleiki og hreinleiki matar var algjört lykilatriði.

Þegar ég svo sagði skilið við gamla fyrirtækið, Frú Laugu, stofnaði ég fljótlega nýtt, Vínbóndann ehf. Þar tók ég aftur upp þráðinn við Ítalíu og hreinleikann, nú í formi innflutnings á náttúruvínum frá Ítalíu.“ Í dag hefur Arnar þó bætt við ólífuolíu og fleira matarkyns sem hann selur í svokölluðum matarkössum.

Arnar flytur bæði inn náttúruvín og lífræna matvöru frá Ítalíu og selur eftir pöntunum. Mynd/Aðsend

Mánaðarlegar sendingar frá 15 ítölskum bændum

Arnar fær nú mánaðarlegar sendingar frá Ítalíu frá um 15 bændum sem hann er í beinu og nánu sambandi við. „Flestir eru mjög smáir enda getur verið erfitt fyrir stór fyrirtæki að framleiða vörur á þann hátt sem ég kýs að flytja inn. Í hverri sendingu eru margir bændur um borð og fjölmörg vín en oftast lítið af hverju. Sum vín fæ ég í litlu upplagi, ekki er óalgengt að ég sé að fá 60 flöskur af ákveðnum vínum,“ segir Arnar og bætir við að verðlaginu sé stillt í hóf.

„Náttúruvín eru aldrei ódýrustu vínin en sjaldan dýr miðað við þekkt vörumerki eins og Champagne, Barolo eða Bordeaux , né eru þau svokölluð og eftirsótt "stjörnuvín" sem eru vín sem frægir vínskríbentar hafa gefið háar einkunnir og kosta aleiguna.“

Arnar býður upp á sérstakar jólapantanir en í þeim kössum er m.a. að finna þessa Mini panforti köku með hnetum, kakói, appelsínu og kryddum. Mynd/Aðsend

Einu vörurnar sem er þess virði að flytja yfir hafið

Arnari er mjög umhugað um að vörurnar sem hann flytur inn séu framleiddar á hreinan, lífrænan hátt. „Fyrir utan að ég fengi bullandi samviskubit að flytja inn annars konar vörur þá eru mínar vörur bara svo miklu betri og meira gefandi. Fyrir mér er slík vara sú eina sem er þess virði að flytja inn yfir hafið og sú eina sem á raunverulegt erindi.“

Falleg og heiðarleg vara

Vínin sem Arnar flytur inn eru svokölluð náttúruvín en að hans sögn eru það vín sem falla undir eða ganga mun lengra þegar kemur að hreinni framleiðslu. „Því undir merkjum lífrænnar vottunar er samt hægt að nota fjölmargar aðferðir og efni við ræktunina og alveg sérstaklega í vínkjallaranum. Í iðnaðarvínframleiðslu má nota meira en 150 efni í víngerðinni eða tækjabrellur til að breyta vínum, meira að segja dýraafurðir. Slík vín eru ekki hrein þótt þau beri nafnið vín. Náttúvín forðast allt slíkt, eru eins hreinn vínsafi og hugsast getur, falleg og heiðarleg vara sem endurspeglar betur uppruna sinn en flest önnur fyrir utan að vera hollari.“

Jólavörurnar sem og aðrar vörur er hægt að panta á vinbondinn.is