Sigurlaug Helga Guðmundsdóttir skrifar á Facebook síðu sinni að hún hafi næstum tárast þegar hún sá glitta í og heilsaði upp á frægasta kött Íslands. Þar á hún við köttinn Diegó sem er nú kominn aftur til starfa í Skeifunni eftir að hafa jafnað sig eftir bílslys.
„Hjartað bráðnaði eins og smjör. Hann vildi meira að segja „leiða mig“,“ skrifar Sigurlaug.
Diegó á rúmlega tíu þúsund aðdáendur á Facebook-síðu sinni, Spottaði Diegó, og voru unnendur hans skiljanlega slegnir þegar fregnir bárust af því að hann hafi orðið fyrir bíl í lok nóvember og þurfti að gangast undir aðgerð.
Aðgerðin kostaði í kringum 350 þúsund krónur, en söfnun fór af stað fyrir Diegó og á endanum runnu 400 þúsund krónur í pottinn og dugði það greiða fyrir aðgerðina. Restin af upphæðinni rann til dýraverndunarfélagsins Villikatta.
Sigurlaug segist gera sér oft óþarfa ferðir í Hagkaup einungis til að sjá Diegó. Hún bætir við að Diegó eigi sér reyndar tvífara sem býr heima hjá Sigurlaugu, hann Herra Tómas.
