Þegar ég var krakki var alltaf pöntuð pitsa heim á föstudagskvöldum og horft á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu. Ég hlakkaði til alla vikuna!“ segir tónlistarkonan Raven um helgarminningu í dálæti frá æskuárunum.

Raven er listamannsnafn sem varð til vegna þess hve nafn Hrafnhildar Magneu Ingólfsdóttur er langt og óþjált fyrir þá sem mæla ekki á íslenskri tungu.

„Þegar ég fór að semja og gefa út mína eigin tónlist langaði mig að finna listamannsnafn sem héldi tengingu við skírnarnafnið mitt. Þess vegna varð Raven fyrir valinu; út frá hrafninum í nafni mínu,“ útskýrir Hrafnhildur sem er 22 ára snót úr Laugardalnum.

„Tónlistin hefur alltaf legið fyrir mér. Ég hef sungið frá því ég man eftir mér og verið í ýmsu tónlistarstarfi síðan á unglingsárum,“ segir Hrafnhildur sem nú er í háskólanámi í djasssöng við Conservatorium van Amsterdam.

„Ég bý hér í Amsterdam með kærastanum mínum sem er í sama námi. Um helgar förum við iðulega á samfundi við aðra Íslendinga sem við þekkjum hér úti, í bíó eða fáum okkur bjór á huggulegri krá. Stundum höfum við það líka kósí heima, æfum okkur og glápum á sjónvarpið,“ svarar Hrafnhildur aðspurð um dæmigerða helgi í Hollandi.

100 prósent næturhrafn

Hrafnhildur segist vera mikill „sökker“ fyrir notalegheitum þegar loks gefast helgarfrí úr náminu.

„Ég er 100 prósent næturhrafn og hef alltaf verið. Mér finnst því gott að sofa út, fara í göngutúra og fá mér góðan mat; til dæmis feita, ljúffenga pitsu,“ segir Hrafnhildur og kveðst meira en hrifin af snakki og poppi á kósíkvöldum, eins og þeir viti sem þekkja hana.

„Uppáhaldssnakkið mitt er Bugles og ég tek snakk alltaf fram yfir sælgæti,“ segir hún kát.

Til að koma sér í föstudagsgírinn hlustar Hrafnhildur á lagið Hvað ef með GDRN og Auði.

„Þegar ég skelli mér á djammið heima á Íslandi fer ég oftast á Petersen-svítuna, Íslenska barinn eða Sólon, en hér úti er ég enn að kanna aðalstaðina,“ segir Hrafnhildur og heldur áfram: „Á kósíkvöldi heima gæti ég hins vegar horft á Harry Potter-seríuna aftur og aftur og svo finnst mér alltaf gaman að fá gesti, sama hverjir þeir eru, ekki síst þegar maður býr svo langt í burtu frá sínum nánustu. Því finnst mér nauðsynlegt eftir langa og stranga viku að hitta vini og eiga með þeim góðar stundir,“ segir Hrafnhildur sem hallast jafn mikið að því að nota helgarnar til hvíldar og útstáelsis.

„Sumar helgar þarf ég virkilega á fríi að halda og vil þá hafa það náðugt heima en stundum finnst mér gaman að nýta helgarnar í alls konar stúss og fjör.“

Að sættast við sambandsslit

Hrafnhildur er nýbúin að gefa út undurfallegt lag sem heitir Hjartað tók kipp.

„Lagið á mjög sérstakan stað í hjarta mínu. Það fjallar um manneskju sem þarf að sætta sig við sambandsslit. Eða í það minnsta reyna að skilja hinn aðilann,“ útskýrir Hrafnhildur um lagið sem er það fyrsta sem hún semur á íslensku.

„Ég samdi það fyrir um tveimur árum en lagið hefur haldið sér eins þar til nú. Hæfileikaríkir vinir mínir útsettu það með mér og ég er himinlifandi yfir viðtökunum sem það hefur fengið,“ segir Hrafnhildur sem leggur líka lokahönd á sína fyrstu EP-plötu.

„Í augnablikinu er tónlist í brennidepli lífs míns, hvort sem það er í náminu eða eigin lagasmíðum og ég er mjög spennt fyrir plötunni. Mér finnst líka ótrúlega gaman að fylgjast með flóru tónlistarfólks heima á Íslandi þar sem svo margt og mismunandi er í gangi og vel gerð músík alls staðar,“ segir Hrafnhildur og liggur sjálfri svo margt á hjarta.

„Mér er nauðsyn að vera einlæg og gefa hluta af sjálfri mér í tónlistina. Því legg ég áherslu á að hafa textana einfalda og einlæga; og syngja um það sem flestir geta tengt við.“