Hjarta leik­konunnar Anne Heche er enn haldið gangandi á meðan læknar kanna á­stand líf­færa hennar. Form­lega hefur hún þó verið úr­skurðuð látin. Daily Mail greinir frá.

Fjöl­skylda Heche gaf út yfir­lýsingu fyrr í dag, þar sem fram kemur að leik­konan hafi form­lega verið úr­skurðuð látin, sléttri viku eftir að hún keyrði á hús í Los Angeles.
Heche missti með­vitund skömmu eftir slysið og féll í dá sem hún vaknaði aldrei úr, en í gær var hún úr­skurðuð heila­dauð.

Fjöl­skyldan segir leik­konuna löngum hafa lýst því yfir að hún vildi verða líf­færa­gjafi. Hún verði í öndunar­vél þar til læknar hafa á­kvarðað hvort líf­færi hennar séu líf­væn­leg.

„Í dag misstum við bjart ljós, hlý­lega og glaða sál, ást­ríka móðir og trygg­lyndan vin. Hug­rekki hennar í því að standa á­vallt með sann­leikanum, út­deila skila­boðum um ást og viður­kenningu, mun hafa ævarandi á­hrif,“ segir í yfir­lýsingunni.