„Ég var búin að vera að skrifa pistla í Víkurfréttir í nokkurn tíma og fékk mjög góð viðbrögð og undirtektir við þeim. Út frá því ákvað ég að stofna Hamingjuhornið. Síðan hefur fengið frábær viðbrögð og pistlarnir mikla dreifingu svo nú langar mig að gefa út bók,“ segir Anna Lóa Ólafsdóttir, pistlahöfundur og ráðgjafi.

Hún heldur úti Facebook síðunni Hamingjuhornið þar sem hún er með yfir 10.600 lesendur. Á síðunni skrifa Anna Lóa pistla um ýmis málefni þar sem hún leggur áherslu á sjálfsþekkingu, jákvæða sálfræði og að einstaklingar taki ábyrgð á eigin lífi til þess að auka hamingju sína.

Hugmyndin kviknaði í hruninu

Hugmyndin að Hamingjuhorninu kviknaði stuttu eftir bankahrunið, en á þeim tíma hafði Anna Lóa verið með námskeið í sjálfsstyrkingu í nokkurn tíma ásamt því að hún stundaði nám við náms- og starfsráðgjöf. „Í náminu fengum við kynningu á jákvæðri sálfræði og því hvernig maður getur aukið hamingju í lífi sínu. Ég féll fyrir þessu og hef haldið fyrirlestra og skrifað pistla sem tengjast þessu síðan,“ segir Anna Lóa.

„Hugmyndin er sú að fá fólk til að hugsa hvernig þú sem einstaklingur getur bætt líf þitt, að þú sem einstaklingur takir ábyrgð á lífi þínu því það er ýmislegt sem að þú getur gert sjálfur og hamingjan er oft beint fyrir framan mann í litlu hlutunum. Mér fannst það mjög þarft í umræðuna á þessum tíma og svo kemst maður að því að það eru allir alltaf að takast á við einhver verkefni, þó að bankahrunið sé yfirstaðið þá er alltaf eitthvað í gangi í samfélaginu,“ segir hún.

Anna Lóa segir sjálfsþekkingu mikilvæga í stjórnun streitu.
Mynd/Anna Lóa

Streita áberandi í samfélaginu

„Ég reyni að skrifa um það sem er í gangi í samfélaginu hverju sinni og fjalla þannig um málefni líðandi stundar,“ segir Anna Lóa. „Svo er þetta svolítið árstíðabundið, núna er ég til dæmis að fjalla mikið um streitu sem er áberandi í samfélaginu þegar við erum að koma úr sumarfríi, allir að fara aftur í sína rútínu í skólanum og vinnunni,“ bætir hún við.

Aðspurð að því hvort hún lumi ráðum fyrir lesendur til að minnka streitu og auka hamingjuna segir hún að mikilvægast sé að þekkja sjálfan sig og taka stjórn á eigin lífi.

„Sjálfsþekking er svo ótrúlega mikilvæg þegar kemur að streitu. Það að maður skipuleggi sig og sitt líf út frá sjálfum sér, því að við erum sérfræðingar í okkar lífi,“ segir Anna Lóa.

„Bara að taka um stýrið á lífi sínu og stýra því í þá átt sem að maður veit að er gott fyrir mann sjálfan og svo er mikilvægt að hafa kjarkinn til að fylgja því eftir,“ útskýrir Anna Lóa.

Gefur bestu bitana út í bók

Önnu Lóu hefur lengi langað að gefa pistla sína út í bók og hefur hafið söfnun fyrir útgáfu bókarinnar á Karolina Fund.

„Við byrjuðum söfnunina seinni hluta seinustu viku og erum strax komin í 30 prósent. Ég hef náttúrulega ekki gert þetta áður en ég held að þetta sé bara ágætt,“ segir Anna Lóa kát.

Ýmsar leiðir eru í boði til þess að styrkja útgáfu bókarinnar sem bæði höfða til einstaklinga og fyrirtækja. „Mig langaði að höfða til allra. Fyrirtæki sem styðja mig geta fengið mig með fyrirlestur fyrir starfsfólk þar sem við fjöllum um hamingjuna og allir vinna,“ segir Anna Lóa.

Í bókinni verða þeir pistlar sem lesendur Önnu Lóu hafa gefið sem mestan byr ásamt pistlunum sem mikil þörf er fyrir í umræðunni að hennar mati. „Þetta eru bestu molarnir í konfektkassanum, ég mun velja gaumgæfilega þá pistla sem mér finnst best eiga heima þar og þá sem að lesendur mínir hafa komið til skila að skipti þá máli,“ segir Anna Lóa.

En af hverju bók?

„Sjálf hlusta ég mikið meira á bækur í dag en ég gerði en ég kaupi ennþá sérstakar bækur. Bækur sem vekja upp hjá mér einhverja tilfinningu sem ég get varla líst,“ svarar Anna Lóa.

„Mig langar að gera fallega bók sem gefur lesandanum góða tilfinningu þegar hann lesa hana og hugmyndin er að gera svokallaða „Coffee Table“ bók, sem sæmir sér vel á sófaborðinu og fólk getur gripið í þegar eitthvað er í gangi í lífi þess. Að lesandinn geti fundið pistil sem á vel við á þeim tímapunkti og jafnvel liðið betur,“ segir Anna Lóa að lokum. 

Anna Lóa er að eigin sögn mikil fjallageit og segir hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl eiga stóran þátt í hamingjunni.
Mynd/Anna Lóa