Anna segir að hún vilji deila með öðrum sem lenda í kulnum hvað hún lærði sjálf og hvaða tækni hún notaði til að komast yfir þetta líkamlega og andlega ástand. „Ég rak mig á að námskeið fyrir þá sem lenda í kulnun og fyrirlestrar voru bara um hvað kulnun væri en ekki hvað væri hægt að gera til að forðast hana eða ná bata. Ég verð með þetta námskeið á netinu og það er hægt að hala niður appi sem fólk getur nýtt sér á þeim hraða sem því hentar best. Námskeiðið hefst 1. september og það verður alltaf hægt að nýta sér það þar sem ýmislegt fylgir, eins og myndbönd, texti og vinnubók auk ýmissa ráða sem hjálpa fólki að takast á við kulnun. Ég tel mikla þörf á svona fræðslu því mjög margir finna fyrir kulnun,“ segir Anna og bætir við að hún hafi fundið fyrir miklum áhuga á námskeiðinu.

Að hafa námskeiðið á netinu gerir fólki auðvelt að nálgast aðgengið hvar sem það er statt, að því er Anna segir. „Í kulnun er fólk oft hvorki með orku né vilja til að umgangast aðra. Það getur verið andlega erfitt þegar fólk er ekki upp á sitt besta. Þetta er mjög mikil sjálfsvinna og skiljanlegt að fólk vilji hlúa að sér heima og gera þetta í einrúmi,“ upplýsir hún. „Ef það sýnir sig að það sé áhugi fyrir að hafa námskeið í raunheimum get ég einnig gert það. Sjálf vildi ég bara fara rólega af stað í átt að bata,“ segir hún.

Þegar Anna er spurð hvort hún geti lýst þeirri kulnun sem hún varð fyrir, svarar hún: „Minnisleysi, svefnleysi, áhugaleysi og allt varð svo rosalega erfitt. Hlutir sem áður voru auðveldir og skemmtilegir voru kvöð. Ég vildi ekki gera neitt. Bara liggja og hvílast en gat síðan ekki hvílst. Mikið hugarangur. Verra en nokkurt þunglyndiskast sem ég hafði fengið. Orka 0% – pirringur 100%.“

Anna segist hafa unnið sig til bata með mikilli hvíld. „Að skoða dagskrána mína og deila verkefnum. Vera með fólki sem gefur frá sér orku. Síðan þarf að finna réttu vítamínin og bætiefni. Ég var með vítamínskort og tók inn B12 og D en skortur á þeim vítamínum getur valdið orkuleysi. Einnig tók ég meltingargerla, Biokult Mind og síðan Head á meðgöngu sem hjálpar geðheilsunni enda 90% serótónin sem býr í meltingunni,“ segir hún.

Anna sótti líka fræðslu hjá Hugarafli og segist hafa fengið mikinn stuðning þar. „Get sannarlega mælt með því. Prófaði líka Geðhjálp og Stígamót en samtök eins og þessi geta sannarlega bjargað mannslífum. Ég var stöðugt að vinna í mér, því meira sem maður veit um sjálfan sig, þeim mun meira veit maður um sitt orkustig. Þetta er líkt og með símann, maður hleður hann en er svo með öpp sem taka mikla orku. Við þurfum að gæta að því að hlaða eigin batterí,“ segir Anna. „Það er voða gott að fá hrós fyrir að vera duglegur og mikil vinna er samfélagslega samþykkt. En plís, ekki láta dugnaðinn drepa þig.“

Anna segist vera ný manneskja í dag enda passar hún sig á öllum viðvörunarbjöllum. „Til dæmis finn ég fyrir þreytu og minnisleysi ef ég er á fullu að hlaupa á milli staða. Mikilvægt er að minnka við sig stressið, hvílast og fá stuðning. Ég hef alltaf verið á fullu og fengið orku úr því að gera mismunandi hluti,“ segir hún en Anna hefur kennt dans, Zumba og Jallabina ásamt mörgu öðru. Anna er tilbúin til að svara spurningum ef þær brenna á einhverjum en hún er með netfangið anna.claessen@gmail.com. Námskeiðið má finna undir happystudio.teachable.com.

Anna segist hvetja fólk til að hreyfa sig, að finna eitthvað sem hentar og gefur gleði þannig að það nenni í ræktina. „Bara prófa sig áfram og finna það rétta,“ segir hún.