Endurhæfingardeild Landspítalans gengur dagsdaglega undir nafninu Grensásdeild út af staðsetningunni. Við erum í miðju höfuðborgarsvæðisins en húsið stendur á gömlu túni, efst á Grensáshæð með útsýni til allra átta. Grensásdeildin varð upphaflega til sem hluti af gamla Borgarspítalanum árið 1973. Allt frá upphafi hefur endurhæfing verið rauði þráðurinn í starfsemi hússins. Stærsti hluti þeirra sem til okkar koma eru einstaklingar sem hafa fengið sjúkdóma eða áverka í taugakerfi. Þar eru heilablóðfallssjúklingar langstærsti hópurinn, en einnig koma margir vegna heilaáverka, mænuskaða, fjöláverka, ýmissa aðgerða, útlimamissis eða annarra alvarlegra veikinda. Þessi þjónusta er eðli málsins samkvæmt, hluti af gangverki Landspítalans og langflestir, sem hingað koma, koma beint af deildum spítalans,“ segir Stefán Yngvason, yfirlæknir á Grensás.

Á þessum 46 árum hefur starfsemin breyst og þróast í takt við nútímann, nýja tækni og breytingar í lýðheilsu og sjúkdómsmynstri fólks. Hlutverk deildarinnar er nú sem fyrr að gefa fólki tækifæri til að öðlast á ný sem mest af fyrri færni og aðlagast breyttum aðstæðum.

„Hátt í 60 rúm voru á Grensási á árum áður en núna eru þau 20 talsins. Aftur á móti erum við með stóra dagdeild. Fjöldi rúma setur deildinni vissar skorður og undanfarin tvö ár hefur hægt á starfsemi hennar. Í því árferði sem hefur ríkt hefur reynst erfitt að útskrifa fólk, hvort sem er á hjúkrunarheimili eða í aðra búsetu. Með fleiri hjúkrunarheimilum og stærri og styrkari sveitarfélögum horfir það þó til betri vegar. Í krafti stærðarinnar ættu sveitarfélögin að vera betur í stakk búin til að taka við sínu fólki, sem er að takast á við breyttar aðstæður í lífi sínu,“ segir Stefán.

Þeir sem sækja þjónustu Grensásdeildar eru á öllum aldri, eða allt frá 18 ára og upp úr en meðalaldurinn er á milli 55-60 ár. Um 400 einstaklingar koma árlega á dagdeild og á sólarhringsdeild. Á deildinni starfar breitt teymi fagfólks, svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfarar, félagsráðgjafar og talmeinafræðingar.

„Við fáum einnig aðstoð frá þeim faghópum sem við þurfum, hvort sem það eru stoðtækjafræðingar hjá einkafyrirtækjum eða næringarfræðingar Landspítalans. Algengast er að fólk komi fyrst á sólarhringsdeildina og færist síðan yfir á dagdeild þegar það getur verið heima hjá sér sjálft. Síðan lóðsum við fólk áfram út í samfélagið og það fer jafnvel í þjálfun annars staðar,“ upplýsir Stefán.

Hjálpað til sjálfsbjargar

Þeir sem þurfa á þjónustu Grensásdeildar að halda eru í langflestum tilfellum að takast á við breyttan veruleika og hefur í raun verið kippt út úr daglegu lífi.

„Þeir sem koma hingað eru margir illa slasaðir eftir slys og með mikla áverka. Á Grensásdeild er fólki hjálpað til sjálfsbjargar og út í lífið á ný. Við endurhæfingu er horft til færni þess og getu og tekið tillit til þess hvað fólk vill sjálft varðandi endurhæfingu. Stærstur hluti þeirra sem koma á Grensás er á vinnufærum aldri og vill komast aftur til vinnu. Sumir búa einir og þurfa að læra að bjarga sér alveg sjálfir, meðan aðrir hafa mikinn stuðning frá fjölskyldu. Þetta skiptir allt máli varðandi endurhæfingu,“ segir Stefán.

Þá hefur starfsemi göngudeildarinnar farið vaxandi undanfarin ár. „Eins og kom fram í sjónvarpsþættinum Kveik nýlega glíma margir við alvarlegar afleiðingar höfuðhögga. Göngudeildin tekur t.d. á móti þeim sem hafa fengið höfuðhögg en við fáum beiðnir bæði frá Bráðamóttökunni og heilsugæslunni. Fólk gerir sér æ betur grein fyrir því hvað höfuðhögg geta verið alvarleg. Þau geta gert fólki mikinn óleik, jafnvel óvinnufært, þótt það sjáist ekki utan á því. Þess vegna er mikilvægt að aðstoða fólk og upplýsa svo það fari í réttar aðstæður og ofgeri sér ekki,“ upplýsir Stefán.

En hversu nauðsynleg er deild á borð við Grensás á Íslandi?

„Endurhæfingardeildir eru fastur hluti af nútíma heilbrigðisþjónustu og eru auðvitað sjálfsagðar, það vita allir. Sem betur fer er gott framboð af fjölbreyttri endurhæfingarþjónustu í landinu, sem er fagnaðarefni. Það sem við gerum hér á sjúkrahúsi er auðvitað sérhæfðara og snýr að þeim sem hafa mestu færniskerðinguna og eru að fást við nýjar aðstæður. Þegar fólk útskrifast frá okkur er gott að vita að það eru mörg úrræði þarna úti í framhaldinu og við reynum að halda samfellu í endurhæfingunni,“ svarar Stefán.

Viðbygging á teikniborðinu

Grensásdeild nýtur mikils velvilja og góðvildar í íslensku samfélagi og hafa líknarfélög og einstaklingar lagt henni lið. Fyrir nokkrum árum voru samtökin Hollvinir Grensáss stofnuð og segir Stefán þau frábæran liðsauka, sem hafi m.a. aðstoðað við tækjakaup. „Stærsta áskorunin sem er fram undan er að bæta aðbúnað sjúklinga og stækka húsnæðið með viðbyggingu. Það er algjörlega nauðsynlegt að fara í slíkar úrbætur, enda er húsnæðið löngu orðið allt of þröngt utan um starfsemina. Herbergin og aðstaðan á sólarhringsdeildinni er hönnun frá 1970 en fjölga þarf einbýlum og salernum. Það vantar líka miklu stærra og betra þjálfunarhúsnæði. Búið er að teikna upp grunnmynd af því hvernig sú viðbygging gæti litið út og fá samþykki í deiliskipulagi Reykjavíkurborgar.“

Fyrir nokkrum árum var haldin landssöfnun fyrir viðbyggingu og safnaðist töluvert fé en Stefán segir að ríkið verði líka að koma að borðinu til að hægt sé að hefjast handa og stækka Grensásdeild. Hann er bjartsýnn á að það verði að veruleika innan tíðar.

„Viðbyggingin myndi tengja allt æfingasvæðið við sundlaugina og um leið myndi aðstaða fyrir sjúklinga batna, einbýlum fjölga, sem og herbergjum. Það yrði algjör bylting að fá þessa stækkun,“ segir Stefán að lokum.