Lalli Töframaður, Lárus Blöndal Guðjónsson, býður upp á jólatónleika og stuð á Facebook í dag. Streymið er opið öllum og kemur í staðinn fyrir útgáfutónleika fyrir jólaplötuna Gleðilega hátíð í bili.

„Síðustu misseri hafa mikið farið í vinnu í kringum jólaplötuna. Það að halda jólatónleika og plana svoleiðis sem er heljarinnar mikið dæmi. Svo verður það enn þá snúnara þegar maður veit ekki hvort tónleikarnir megi vera eða ekki. Allir þurfa að vera tilbúnir að stökkva til ef það kemur grænt ljós þannig að það má ekkert slaka á. En út af svolitlu þurfti að fresta útgáfujólatónleikunum um eitt ár. Það var það eina í stöðunni, nema kannski að fresta þeim um hálft ár og halda jólatónleika næsta sumar. En ég held að það sé ekki alveg málið,“ segir Lalli hlæjandi.

Ætlar að jóla yfir sig

Jólastund Lalla 2020 verður í beinni útsendingu í kvöld frá stofunni heima hjá Lalla.

„Þar mun ég gjörsamlega jóla yfir mig. Það er öllum í heiminum boðið á þessa dásamlegu jólastund, bæði ungum sem öldnum. Það er þétt og flott á dagskrá og leynigestirnir verða ekkert minna en dásamlegir. Ég mun þurfa að halda rosalega vel á spöðunum því planið er að þetta verði ekki lengra en 45 mínútur,“ segir hann.

Lalli er heldur betur ánægður með viðtökurnar á plötunni. Hún er núna komin í allar helstu plötubúðir á vínylformi.

„Pælingin með plötuna var svolítið sú að þetta væri sú jólavínylplata á heimilinu sem allir í fjölskyldunni gætu hlustað á saman á meðan að piparkökurnar eru gerðar. Fólk þarf samt ekkert að stressa sig ef það á ekki plötuspilara, því hún er líka komin á Spotify.“

Knús í útvarpinu

Fyrsta smáskífa plötunnar er lagið Knús.

„Vonandi mun það heyrast eitthvað á útvarpsstöðvunum um jólin sem og önnur lög af plötunni. Þó svo við megum ekki knúsa alla eins og staðan er akkúrat núna að þá er ágætt að fá eitt knús-jólalag til að minna okkur á að knúsa þá allavegana okkar nánasta fólk,“ segir Lalli.

Hann segir það eflaust vera háleitt markmið að stefna á róleg og kósí jól, verandi með fjögur börn á heimilinu.

„Þannig að ég stefni bara á ógeðslega hress og skemmtileg jól með fjölskyldunni og vonandi helling af ferðum á snjóþotu og svo krossa ég putta og vonast til að komast í jólasund líka.“

Lalli hefur alltaf verið mikið jólabarn og segist alltaf vera í jólaskapi.

„Ég er alltaf í jólaskapi hvort sem það eru jól eða ekki. Hjá mér eru alltaf jól og jólagleði allt árið,“ segir hann.

Jólalög í júlí

Ert þú og fjölskylda þín með einhverja skemmtilega siði um jólin?

„Þeir siðir sem við höldum hvað mest í á jólunum eru aðallega tveir og báðir á aðfangadag. Annar þeirra er að baka piparkökur hjá ættfólki konunnar á Akranesi. Síðan fer ég alltaf á Barnaspítala Hringsins sem Lalli töframaður á aðfangadag og eyði tíma með krökkunum þar, sýni þeim töfrabrögð og sprella.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?

„Nú, auðvitað samveran með fjölskyldu og vinum. Það er alltaf númer eitt. En svona þegar ég hugsa aðeins út fyrir kassann þá er eitt það skemmtilegasta við jólin að geta hlustað á jólalög á fullu blasti án þess að fólk öskri á mig: Slökktu á þessu, það er júlí!“

Jólastund Lalla 2020 verður í beinni útsendingu á Facebook í kvöld klukkan 19.30.