Margrét Danadrottning hélt blaðamannafund í fyrsta sinn eftir andlát Hinriks prins eiginmanns hennar í febrúar á þessu ári. Á fundinum, sem fór nýlega fram á sveitasetri þeirra í Frakklandi, svaraði hún spurningum blaðamanna um síðustu stundir þeirra hjóna.

Drottningin var einlæg og hreinskilin og sagði það sjálfsagt mál að virða síðustu ósk Hinriks að hann fengi sérgrafreit en myndi ekki hvíla við hlið drottningar líkt og venja er. 

Hún sagðist jafnframt skilja umrótið sem varð í kringum umræðuna um hinsta hvíldarstað þeirra hjóna. „Hann var frjáls manneskja, þetta var hans hinsta ósk og ég virði hana.“

Sjá einnig: Hinsta ósk Hinriks

Margrét hefur sjálf átt erfiða daga vegna heilsubrests en hún þjáist meðal annars af stöðugum bakverkjum. Hún dvelur um þessar mundir á sveitasetrinu í Cayx í Frakklandi en þar dvöldu þau hjón gjarnan á sumrin og sinntu áhugamálum sínum og vínrækt.

Hinrik lést að morgni þriðjudagsins 13.febrúar í faðmi fjölskyldunnar, hann var 83 ára þegar hann lést.

„Síðasta hálfa árið hittumst við sjaldan vegna veikinda hans. Það er þannig sem það var. Ég er þakklát að banalegan var stutt og dauðastundin friðsæl þetta var fallegur endir á tilvist hans hér á jörð,“ - sagði drottningin meðal annars. 

Margrét og Hinrik gengu i hjónaband 10. júní 1967 og áttu gullbrúðkaup á síðasta ári. „Hann hafði mikla kímnigáfu, og var indæll og sérstaklega myndarlegur,“ - sagði Margrét þegar hún lýsti kostum eiginmanns síns heitins.

Hinrik fór fram á að helmingi ösku hans yrði dreift í hafið við strendur Danmerkur. Drottningin viðurkenndi að fjölskyldan hafi enn ekki komið því í verk. Hinn helmingurinn er jarðsettur í einkagrafreit konungsfjölskyldunnar við Fredensborgarhöll.