Iðavöllur er sýning fjórtán samtímalistamanna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Sýningarstjórar eru Ólöf Kristín Sigurðardóttir, Aldís Snorradóttir og Markús Þór Andrésson.

„Okkur fannst komið að því að taka stöðuna á þessari kynslóð listamanna. Þetta er fólk sem hefur byggt upp listasenuna á þessari öld, áunnið sér sess og er á ákveðnum hápunkti á ferli sínum,“ segir Markús Þór

„Á þessari sýningu og í meðfylgjandi sýningarskrá erum við að skoða þá þætti sem einkenna kynslóðina. Viðfangsefni listamannanna og aðferðir eru ólík en það sem sameinar er að þau falla á milli tveggja tímabila, fram að því sem gerist um aldamótin og því sem gerist eftir aldamótin. Stærsta breytingin á þessum tíma er ef til vill hin stafræna bylting, en það er auðvitað fjölmargt annað. Margar spurningar hafa vaknað um þær breytingar sem eiga sér stað í tilvist okkar og þær skila sér til dæmis í verkum þar sem listamenn tjá upplifun okkar af náttúrunni og umhverfinu og því hvernig skynheimur okkar er að breytast sem og skilningur á sögu og samfélagi.“

Verk Önnu Rúnar Tryggvadóttur hlýtur að heilla listunnendur. Mynd/Axel Sigurðarson

Fulltrúar nýrra tíma

Verkin á sýningunni eru ný og sérstaklega gerð fyrir sýninguna sem heitir Iðavöllur. Iðavöllur er samkomustaður goðanna í norrænni goðafræði og þar mætast þau við sköpun heimsins. „Okkur sýningarstjórunum finnst eins og listamennirnir séu fulltrúar nýrra tíma í svo mörgum skilningi og þegar kom að því að gefa sýningunni heiti leituðum við Ólöf og Aldís að einhvers konar tengingu við nýtt upphaf. Iðavöllur er þar sem æsirnir hittust í fyrsta sinn til að skapa heiminn og þegar þeir þurftu að byggja hann upp á ný eftir Ragnarök. Þannig að í goðsögulegu tilliti er Iðavöllur hlutlaus byrjunarreitur þar sem hægt er að byggja upp eitthvað nýtt,“ segir Markús.

Sýningin er um allt Hafnarhúsið sem nú er með nýjum inngangi um portið frá Naustum við Kolaportið. Listamennirnir höfðu margir hverjir rýmið í huga við gerð verka sinna. „Við erum nýbúin að fagna því að Listasafn Reykjavíkur er búið að vera í tuttugu ár í húsinu. Húsið hefur haft áhrif á listasöguna hér á landi vegna þess að það hefur skapað nýjan vettvang og stundum bregðast listamenn líka beint við nánasta umhverfi í verkum sínum. Nokkur verk á þessari sýningu fjalla beinlínis um rýmið sem þau eru í, þar er sérstaklega horft til arkitektúrs og starfseminnar,“ segir Markús og bendir á verk Elínar Hansdóttur sem beinir athyglinni að þeim ólíku sjónarhornum sem listasafn býður áhorfendum sífellt upp á.

Voldugt plöntusafn

Blaðamaður tók viðtalið við Markús í einum af fjölmörgum sölum safnsins. Í þeim sal er eitt verk sem yfirtekur rýmið, það er eftir Bjarka Bragason og sýnir voldugt plöntusafn. „Vinir Bjarka í Þýskalandi erfðu eftir forföður sinn þetta plöntusafn sem veitir innsýn í umhverfið á ákveðnum stað og stund. Listamaðurinn tengir plöntusafnið síðan við ákveðinn kima íslenskrar náttúru á okkar tímum og við þá speglun kemur eitt og annað fram um breytileg tengsl manns og náttúru,“ segir Markús.

COVID setti sannarlega strik í reikninginn í myndlistarheiminum. Hjá Listasafni Reykjavíkur var ákveðið að leggja árið í ár áherslu á að vinna með starfandi samtímalistamönnum. „Við erum að búa til verkefni í samstarfi við allar kynslóðir lifandi listamanna. Það sést til dæmis núna á Kjarvalsstöðum, í Ásmundarsafni, á nýlegri sýningu á verkum Errós og og samtímalistamanna og svo á þessari glæsilegu sýningu,“ segir Markús Þór.