Fólk

Hittir ótrúlegasta fólk

Erling Bang, trommuleikari rokksveitarinnar Fufanu, er á stöðugu flandri um heiminn. Heima finnst honum best að spila fótbolta með stráknum sínum, horfa á kvikmyndir og grallarast með góðum vinum.

Áður en Erling Bang gekk til liðs við Fufanu hafði hann komið víða við og spilað með ólíkum hljómsveitum og listamönnum. MYND/ANTON BRINK

Síðasta ár var viðburðaríkt hjá meðlimum rokksveitarinnar Fufanu sem spiluðu á tónleikum og tónleikahátíðum víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. Síðasta hálfa árið hefur sveitin þó tekið mikilvæga pásu frá ferðalögum og tónleikahaldi en eytt tímanum frekar í hljóðveri við að semja ný lög og æfa nýtt tónleikasett að sögn Erlings Bang, trommuleikara sveitarinnar. „Síðasta ár einkenndist af mikilli keyrslu en um leið er þetta búinn að vera skemmtilegur tími. Það hefur auðvitað verið magnað að fá að koma á nýja staði og hitta stundum alveg hreint ótrúlegt fólk sem ég ætla nú ekkert að vera að nefna sérstaklega. En ég ætti að taka einn stað út mundi ég nefna Sikiley á Ítalíu sem er alveg einstakur staður.“

Nýtt efni í sumar

Í lok júní gaf Fufanu út EP-plötuna Dialogue I sem inniheldur fjögur ný lög auk þess sem myndbönd við tvö laganna voru frumsýnd um svipað leyti. „Við vorum allir búnir að gera mörg lög hver í sínu horninu. Lögin voru mjög fjölbreytt þannig að við tókum þá spennandi ákvörðun að flytja inn hipphopp-upptökustjóra alla leið frá Harlem til að ákveða hvaða lög við myndum vinna með og klára. Hann heitir Alap Momin og setti klárlega fingraför sín á efnið okkar. Ég mundi segja að nýju lögin væri talsvert öðruvísi heldur en á síðustu tveimur plötum, innihalda til dæmis meiri bassa og danstónlistin er meira áberandi.“

Um leið gáfu þeir út myndbönd við tvö laganna, Hourglass og Listen to me. „Ég kom nú sjálfur lítið að gerð myndbandanna en Kolbeinn, bróðir Hrafnkels í bandinu, gerði myndbandið við Hourglass og svo gerði Gulli gítarleikari okkar myndbandið við Listen to me, úr efni sem var tekið upp fyrir plötuumslögin af Dialogue EP-plötunum.“

Erling Bang hefur lengi vakið athygli fyrir skemmtilegan klæðaburð og stíl. Anton Brink

Byrjaði í þyngri böndum

Áður en Erling gekk til liðs við Fufanu hafði hann komið víða við og spilað með ólíkum hljómsveitum og listamönnum. „Ætli fyrsta þekkta hljómsveitin sem ég var í hafi ekki verið I Adapt sem var ein þekktasta hardcore hljómsveitin landsins og spilaði mjög hraða og aggressíva pönktónlist. Þá var ég sautján ára gamall og við vorum strax byrjaðir að túra ansi grimmt. Eftir það var ég í Celestine sem var þungt metalband. Á þeim tíma var ég einnig í undirheima-rafverkefni sem hét Krooks og þar kynntist ég tónlistarmanninum Teiti sem síðar bauð mér í Ojba Rasta. Eftir það fór ég að spila með Sin Fang og Singapore Sling en geng síða til liðs við Fufanu árið 2015.“

Spilar fótbolta með syninum

Lífið á tónleikaferðum getur verið lýjandi og inn á milli finnst Erling gott að slaka á heima. „Helsti gallinn við þennan lífsstíl er kannski helst hvað maður er mikið í burtu frá sínum nánustu, hvort sem við erum að úti að túra eða í stúdíóinu. Þegar ég er heima finnst mér best að vera með stráknum mínum, Stefáni Rökkva sem er níu ára, að spila fótbolta eða Fortnite. Mér finnst líka mjög gaman að horfa á bíómyndir. Svo reyni ég að grallarast eitthvað með góðum vinum annað slagið. En það getur verið erfitt að festa sig í einhverju þegar maður er sífellt á flandri um heiminn. Ég hef til dæmis varla tölu á hvað ég hef búið á mörgum stöðum síðan ég byrjaði í Fufanu.“

Þegar Erling er á landinu finnst honum best að spila fótbolta með stráknum sínum, Stefáni Rökkva, sem er níu ára gamall.

Þegar tími gefst til trommar hann með öðrum listamönnum og hljómsveitum sem hann segir gefa sér mikið. „Mér þykir mjög gaman að vinna með öðrum listamönnum og hef verið einstaklega heppinn með að fá að vinna með ótrúlegum listamönnum sem eru miklu klárari en ég á alls konar sviðum. Það veitir mér styrk og innblástur, þannig hef ég lært og komist áfram í því sem ég er að gera.“

Skemmtilegur stíll

Erling hefur lengi vakið athygli fyrir skemmtilegan klæðaburð og stíl. Hann segist þó þurfa að viðurkenna að hann sé alls enginn tískusérfræðingur. „Ég veit yfirleitt ekkert um það hvað er í tísku hverju sinni og það hefur lítið breyst síðustu árin. En mér hefur alltaf þótt tískuheimurinn dálítið fyndinn og skemmtilegt fólk í honum. Ég horfði mikið á MTV og Cartoon Network þegar ég kom heim úr skólanum sem unglingur sem hefur vafalaust haft sín áhrif á stíl minn og smekk. Fatastíllinn minn breytist ekkert þótt ég sé á tónleikaferðalagi nema þá kannski þannig að fötin verða aðeins skítugri á ferðalögum. Ég klæði mig bara í þau föt sem eru hrein þann daginn og er heppinn með að kunna vel við öll föt sem ég á. Fyrir vikið þarf ég ekkert að eyða of miklum tíma í að velja föt fyrir hvern dag.“

Bókaðir fram í tímann

Í kvöld kemur sveitin fram á tónleikum á tónlistarhátíðinni Musilac 2018 í Aix-les-Bains í Frakklandi en meðal flytjenda á hátíðinni eru Depeche Mode, Deep Purple og Simple Minds. Seinna í sumar gefa þeir út tvær aðrar EP-plötur og spila á hinum og þessum tónleikum og tónlistarhátíðum um heiminn. „Við erum nýkomnir frá Hollandi og spilum í Frakklandi í kvöld. Á næstu mánuðum munum við m.a. spila í Sviss, Lúxemborg, Írlandi, Austurríki og Englandi. Ég held að við séum bókaðir fram í október en vona að við náum að spila allavega einu sinni hérna heima.“

Hægt er að hlusta á ný lög Fufanu á Spotify og horfa á myndböndin á www.fufanu.net.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Hlaupastíllinn getur komið þér lengra

Fólk

Öll orkan fór í að komast í sam­band við tísku­húsin í París

Fólk

„Einkennin geta verið svo lúmsk“

Auglýsing

Nýjast

Þegar tungu­málið hljóp með Ís­lendinga í gönur

Chanel tilkynnir eftirmann Lagerfeld

Hóta að dreifa klám­mynd­bandi af Eddu: „Nú bíð ég spennt!!!!“

Ís­lands­svín vekja furðu og hroll með aug­lýsingu

Lagst­ur und­ir hníf­inn: „Aksturs­hæfn­in dvín“

Fann fljótt að þetta gerði mér gott

Auglýsing