Lífið

Hita upp fyrir Ísland – Nígería

Hljómsveitin Casio Fatso kemur fram á Secret Solstice í ár, í fyrsta sinn. Hún flytur rokktónlist í anda tíunda áratugarins og er með nokkur ný lög fyrir aðdáendur sína.

Hljómsveitin Casio Fatso hefur vakið mikla athygli. Þetta verður fyrsta skiptið sem hún kemur fram á Secret Solstice.

Sigursteinn Ingvar Rúnarsson, gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar, segir að það hafi verið nóg að gera hjá Casio Fatso undanfarið. „Við gáfum út plötu númer tvö í fyrra og höfum verið að keyra svolítið á henni. Núna erum við búnir að semja nokkur ný lög sem fara á plötu þegar rétti tíminn er kominn. Undanfarnar þrjár helgar höfum við verið með tónleika og flutt nokkur af þessum nýju lögum. Við höfum fengið frábær viðbrögð við þeim,“ segir hann. „Við vorum til dæmis á tónleikum með hljómsveitinni Vicky á Gauknum um daginn. Breska hljómsveitin Adore//repel bað okkur síðan að hita upp fyrir tónleikana sína hér á landi sem var mjög skemmtilegt. Loks komum við fram á Dillon sem var nokkurs konar upphitun fyrir Secret Solstice tónlistarhátíðina,“ segir Sigursteinn.

„Við höfum verið að æfa texta við nýju lögin á þessum tónleikum sem hefur verið fínn undirbúningur. Við hlökkum ótrúlega mikið til að spila á Solstice og ætlum til dæmis að hita upp á sviðinu fyrir leik Íslands og Nígeríu sem sýndur verður á stóru tjaldi eftir tónleikana okkar. Einnig finnst okkur mjög skemmtilegt að skipuleggjendur hátíðarinnar leggja áherslu á rokktónlist núna. Það hefur verið mikið rapp og hipphopp sem er fínt en gaman að breyta til. Tónlist er sveiflukennd og það sem fer niður kemur alltaf upp aftur. Kannski fær rokkið svolitla umfjöllun núna. Við fáum innblástur í tónlistinni frá þeim tíma sem við vorum að alast upp, það er frá árunum 1990-1999 sem kallað er Modern Rock Nineties. Okkar tónlistarsmekkur mótaðist á þessum árum,“ segir Sigursteinn en síðasta plata hljómsveitarinnar nefnist einmitt Echoes of the Nineties. „Við vildum snúa fólki yfir í þessa tegund tónlistarinnar.“

Casio Fatso hefur starfað frá árinu 2012 og komið víða við. „Við vorum að móta bandið fram til ársins 2014 en þá fundum við vettvang sem hentaði okkur. Fyrsta platan kom út 2015. Þriðja platan gæti komið út á næsta ári en ný lög eru að koma út frá okkur á næstu dögum. Gestir á Secret Solstice fá að heyra þau lög auk eldri laga í nýjum búningi. Við komum spenntir til leiks og í miklu stuði,“ segir Sigursteinn en þess má geta að hljómsveitin hefur nokkrum sinnum spilað í Ástralíu við góðar undirtektir og var á toppi vinsældalista á útvarpsstöðinni Undiscovered Rock Radio í nokkrar vikur. „Platan okkar Echoes of the Nineties fékk eina hæstu einkunn sem stöðin hafði gefið. Mikið var talað um plötuna og lögin öll krufin til mergjar með tilheyrandi viðtölum,“ segir Sigursteinn.

Fyrir utan Sigurstein eru í hljómsveitinni þeir Atli Erlendsson bassaleikari, Þorvaldur Örn Valdimarsson sem leikur á gítar og Helgi Birgir Sigurðarson trommuleikari. Hljómsveitin er á Facebook.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tíska

Hanna flíkur úr ó­nýttum efna­lagerum

Helgarblaðið

Eftir hundrað ár munu fleiri leika sér

Helgarblaðið

Leyndarmál íslenskrar listasögu

Auglýsing

Nýjast

Hatari er viðvörun

Líkt við Gaultier og Galliano

Í­huguðu nánast alla leikara í Hollywood fyrir Titanic

Erna komst inn í einn virtasta lista­há­skóla Evrópu

Rosa­legt ferða­lag fíkilsins

Vargurinn sleppti heil­brigðum haferninum

Auglýsing