Við erum æsispennt fyrir sumrinu og því að fá líf í húsið á ný. Krakkana þyrstir í að koma og við að fá þau,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri hjá Borgarbókasafninu.

Hún er stödd í menningarhúsinu Gerðubergi í Efra-Breiðholti þar sem verður hörkufjör í sumar og ókeypis smiðjur fyrir ungmenni á aldrinum 12 til 16 ára í upplifunarrýminu OKinu.

„OKið er nýtt upplifunarrými þar sem ungmenni geta lært, skapað, fiktað, átt í samtali eða einfaldlega hangið og verið í einrúmi. Rýmið er ætlað ungmennum og hafa þau tekið virkan þátt í þróun og framkvæmd verkefnisins,“ upplýsir Guðrún um OKið sem er styrkt af Barnamenningarsjóði.

Ungmenni í Breiðholti tóku þátt í rýnihópavinnu og voru þau spurð hvað þau vildu gera sér til dundurs og hvernig þau vildu hafa upplifunarrýmið. Meðal þess sem unglingarnir vildu sjá í OKinu var svið, hellar, sjónvarp, krotveggur, iPad-spjaldtölvur og bækur, sem þó þarf ekkert endilega að lesa.

„Við lítum á OKið sem tilraun til að sjá hvað menningarstofnanir eins og okkar geta boðið unglingum upp á. Bókasöfn eru ekki lengur staðir sem geyma eingöngu bækur, heldur staður fyrir fólk á öllum aldri og við erum að reyna að brjóta upp þetta hefðbundna hlutverk sem bókasafnið hefur,“ segir Guðrún.

„Einmitt þess vegna tengjast smiðjurnar bókum lítið og er fyrsta sumarsmiðjan borðspilagerð sem tengist hugmyndafræði sem við vinnum eftir í gerð rýmisins, að búa til leik út frá því sem við gerum dagsdaglega. Embla Vigfúsdóttir leikjahönnuður og einn af hönnuðum OKsins er umsjónarmaður borðspilasmiðjunnar. Markmiðið með smiðjunni er að ungmennin búi til sína eigin leiki inni og úti.“

Spunaleikararnir Steiney Skúladóttir og Pálmi Freyr Hauksson verða með æðislega spunasmiðju í OKinu en þar er einmitt svið til að sýna listir sínar.

Sumarið tími nýrra upplifana

OKið var formlega opnað í janúar. Í samstarfi við skólana var unnið með þema byggt á stafrænu skáldsögunni Norður eftir danska höfundinn Camillu Hübbe, um norræna goðafræði og samband manns og náttúru.

„Starfið var rétt að komast í gang þegar kórónuveiran blossaði upp og við þurftum að loka safninu en við ætlum að vinna það upp í sumar og bjóða upp á æðislegar sumarsmiðjur. Sumarið kemur til með að verða öðruvísi en venjuleg sumur því landsmenn fara minna til útlanda og unglingarnir fá kannski ekki allir vinnu. Þá er fátt betra en að prófa nýjar upplifanir,“ segir Guðrún kát.

Unglingar í Breiðholti áttu sjálfir hugmyndir að öllum smiðjunum sem eru vitaskuld opnar ungmennum af öllu landinu.

„Efni smiðjanna er fjölbreytt og þær verða unnar í samvinnu við listafólk og aðra samstarfsaðila safnsins. Þar má nefna raftónlist, kynlíf og kynheilbrigði, spuna, gamlar flíkur fá nýtt líf og hipphopp-dans. Meðal leiðbeinenda eru Indíana Rós Ægisdóttir kynfræðingur, Dansskóli Brynju Péturs, fatahönnuðurinn Tanja Huld Levý og spunaleikararnir Steiney Skúladóttir og Pálmi Freyr Hauksson,“ upplýsir Guðrún.

Ein af smiðjum sumarsins í OKinu í Gerðubergi verður hipphopp-dans með Brynju Péturs.

Smiðjurnar verða ýmist á morgnana, frá klukkan 10 til 12, eða frá klukkan 13 til 15. Fyrsta smiðjan verður vikuna 15. til 19. júní en vikuna á undan, 8. til 12. júní, verður Borgarbókasafnið með smiðjur fyrir börn á aldrinum 9 til 12 ára í öllum söfnum, þar á meðan ritsmiðjur, rapptextagerð með Kött Grá Pje, raftónlist og vísindasmiðjur með Sævari Helga.

„Áhuginn er mikill og aðeins örfá pláss eftir. Þátttaka er ókeypis en þörf er á skráningu þar sem pláss er takmarkað. Því þarf að bregðast fljótt við og fyrstir koma, fyrstir fá. Um nýliðna helgi varð strax mikið um skráningar en þótt fullt sé í sumarsmiðjurnar viljum við samt að fólk hafi samband við okkur því við viljum endilega sjá áhugann. Þá getum við mögulega bætt við fleiri smiðjum þegar líður á sumarið,“ segir Guðrún.

Skráning í sumarsmiðjurnar fer fram á heimasíðu Borgarbókasafnsins. Þar má líka sjá allar sumarsmiðjur í boði Borgarbókasafnsins: borgarbokasafn.‌is/sumarsmidjur-borgarbokasafnsins