Regnbogaskólar fyrir öll börn var yfirskrift fræðslufundar sem Samtökin ’78 og Hinsegin dagar stóðu fyrir í liðinni viku. Fundurinn fjallaði um hvernig gera megi skóla- og frístundaumhverfið opnara og þægilegra fyrir öll börn og sérstaklega þau sem passa ekki inn í hefðbundnar staðalímyndir en Sólveig Rós Másdóttir, fræðslufulltrúi hjá Samtökunum ’78, segir markvissa aðgerðaáætlun vanta inn í skólakerfið. Staðan á þessum málum sé ólík milli skóla.

„Okkur vantar íslenskar rannsóknir til að geta sagt fyrir víst um hvernig málin standa almennt en í hinsegin félagsmiðstöð fyrir ungmenni, sem Samtökin ’78 standa að í samstarfi við Reykjavík og Hafnarfjörð, heyrum við ólíkar sögur. Allt frá því að krakkar segjast hafa fengið fullan stuðning frá kennurum og til þess að enginn vill kalla þau þeirra rétta nafni í skólanum. Ég hef líka talað við ungmenni sem fóru gegnum allan grunnskólann án þess að nokkurn tímann væri minnst á „trans“. Þau uppgötvuðu trans á Tumblr og föttuðu þá að það átti við þau sjálf,“ segir Sólveig Rós.

„Enn sem komið er höfum við mjög fáar íslenskar rannsóknir um líðan hinsegin ungmenna en tölur erlendra rannsókna sýna að hinsegin ungmennum líður verr en öðrum ungmennum, þau hrjáir meiri kvíði og þunglyndi og hjá þeim er meira um sjálfsvígstilraunir,“ segir Sólveig. Einfaldir hlutir í daglegu skólastarfi geti gert þeim börnum sem ekki eru viss hvar þau falla inn, erfitt fyrir.

Hinseginþekking kennara misjöfn

„Reykjavíkurborg er með metnaðarfulla mannréttindastefnu sem allir grunnskólar borgarinnar fylgja. Þar kemur fram að hinsegin mál eigi að vera almennur hluti af öllu starfi. Fleiri sveitarfélög eru með mannréttindastefnu og til dæmis er Hafnarfjarðarbær framarlega í þessum málum. Þá segir í aðalnámsskrá grunnskóla að jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar og undir það fellur kyn og kynhneigð. Þekking einstakra kennara á þessum málum og hversu ofarlega skólastjórnendur setja hinsegin mál á listann er aftur á móti afar misjafnt,“ segir Sólveig Rós.

„Hinsegin fræðsla er ekki hluti af kennaranáminu og nýútskrifaðir kennarar eru ekki undirbúnir undir að taka á móti fjölbreyttum nemendahópi. Þetta þýðir að Samtökin ’78, sem eru frjáls félagasamtök, þurfa í raun að stoppa í þetta gat. Við náum því engan veginn en gerum okkar besta. Það vantar markvissari aðgerðaáætlun og að koma þessum málum inn í kennaraskólann, og inn í fleiri skóla.“

Óþarfi að skipta eftir kyni

„Þau sem vinna með börnunum alla daga verða að vera meðvituð um þessi mál og skipuleggja starf sitt þannig að það skapi ekki óþægilegar aðstæður fyrir þau börn og ungmenni sem falla ekki inn í staðlað form. Til dæmis með því að segja ekki „strákar þetta og stelpur hitt“ heldur bara „krakkar“, skipta ekki hópnum upp eftir kyni þegar hægt er að skipta niður eftir stafrófi, lit á sokkum eða hverju öðru sem er. Að nota orðið „foreldrar“ í stað þess að tala alltaf um „mömmu og pabba“ og skipuleggja kynfræðslu þannig að hún nái yfir fjölbreytileikann á kynjarófinu. Fjöldi kennara vinnur sem betur fer mjög gott starf og hefur tekið mörg skref í þá átt að gera lífið þægilegra fyrir hinsegin ungmenni. Þetta mjakast allt í rétta átt,“ segir Sólveig Rós.

Unnið sé að rannsóknum á líðan hinsegin ungmenna hér á landi.

„Árlega gerir Rannsókn og greining stóra rannsókn í framhaldsskólum og þar er meðal annars spurt um kynhneigð. Þar sýna niðurstöður að hinsegin ungmenni sýna meiri reiði, streitu og þunglyndi og verða fyrir meira mótlæti en aðrir. Þá erum við í Samtökunum ’78 að vinna úr niðurstöðum netkönnunar sem lögð var fyrir hinsegin ungmenni og spurt: Hver er þín upplifun? Hefurðu orðið fyrir aðkasti í skóla? hvernig brást skólinn við? Er talað um kynhneigð í þínu námi? Og fleira. Við erum mjög spennt fyrir því að sjá hvað þessi könnun mun sýna okkur.“