Hinn 52 ára gamli Ho Van Lang, sem þekktur er sem „hinn raun­veru­legi Tarsan“ þar sem hann eyddi mestri ævi sinni í frum­skóginum, er látinn 52 ára að aldri. Lang lést þann 6. septem­ber síðast­liðinn úr krabba­meini.

Lang bjó með föður sínum Ho Van Thanh í frum­skóginum í Víet­nam í fjóra ára­tugi. Ævi­skeið Van Lang er líkt og tekið beint út úr sögu­þræði Hollywood myndar.

Þeir feðgar áttu ekki í neinum sam­skiptum við aðra menn, smíðuðu sér tré­hús og klæddust einungis lendar­skýlum úr trjá­berki. Þá veiddu þeir rottur sér til matar.

Á­stæða lífs­háttarins er að sögn breska götu­blaðsins The Sun sú að faðir hans á­kvað að flýja þorp þeirra árið 1972 eftir að banda­rísk sprengja varð eigin­konu hans og hinum tveimur börnum hans að bana. Feðgarnir borðuðu aðal­lega á­vexti, græn­meti, hunang og kjöt­meti líkt og apa, rottur, snáka, eðlur, froska, leður­blökur, fugla og fiska.

Faðirinn þorði aldrei að snúa aftur til sið­menningarinnar þar sem hann óttaðist að Víet­nams­stríðið væri enn í gangi. Árið 2013 römbuðu svo heima­menn fram á feðgana og var þá ekki aftur snúið.

Að sögn vina Lang jafnaði hann sig aldrei á því að komast í kynni við lifnaðar­hætti nú­tímans. Hrifnastur var hann af því að geta verið með ljós á næturna og spenntastur fyrir því að sjá sjón­varp í fyrsta skiptið, en faðir hans hafði sagt honum frá tækinu í æsku, að því er fram kemur í um­fjöllun Sun.

Hér að neðan má horfa á heimildarmynd Docastaway um Lang: