Oddrún Helga Símonardóttir hefur boðið landanum kennslu í ýmis konar matseld undir nafninu Heilsumamman frá því hún útskrifaðist sem heilsumarkþjálfi árið 2013.

Oddrún hefur boðið upp á sín fjölbreyttu námskeið á nokkrum stöðum í gegnum árin en nú heldur hún sig í Heilsuborg og býður þessa dagana upp á tvenns konar námskeið, Morgunmatur og millimál og svo kvöldverðarnámskeið þar sem áhersla er lögð á að auka hlut grænmetis á disknum. „Vinsælustu námskeiðin eru svo sennilega nammi námskeiðin sem eru í nóvember, þar sem við gerum konfekt í hollari kantinum.“ Oddrún segist leggja áherslu á að uppskriftirnar séu einfaldar og innihaldi ekki of mörg hráefni. „Það að borða næringarríkan mat þarf hvorki að vera flókið né bragðlaust.“

Oddrún Helga Símonardóttir hefur haldið námskeið í ýmis konar matseld undir nafninu Heilsumamman í rúm sex ár. Fréttablaðið/Anton Brink

Morgungrautur

Þessi morgungrautur er fullkomin morgunmatur að sögn Oddrúnar. Hann er trefjaríkur og inniheldur einnig prótein og góða fitu og gefur góðan kraft inn í daginn. Hún mælir með að búa til mikið magn í einu því grauturinn geymist í um það bil fimm daga í kæli.

(skammtur fyrir 1)

1 msk hafrar

1 msk hampfræ

1 msk chia fræ

1 dl vatn eða annar vökvi

ávextir ofan á

Blandið hráefninu saman í skál og hrærið öðru hverju. Fræin drekka í sig vatnið og það tekur um það bil 10 mínútur. Það má líka búa grautinn til að kvöldi og geyma í ísskáp, þá er hann tilbúinn að morgni. Grauturinn er ekki bragðmikill og því nauðsynlegt að bragðbæta með ávöxtum og berjum. Einnig er mjög gott að setja 1 tsk af möndlusmjöri og jafnvel múslí. Um helgar læðast svo stundum með 1-2 bitar af smátt söxuðu dökku súkkulaði.

Nánari upplýsingar eru á heilsumamman.is eða á Facebook og instagram undir sama nafni.