Ég flosnaði fljótt upp úr menntaskóla og vann í öllum helstu tískuvöruverslunum borgarinnar. Ég lifði og hrærðist í heimi tónlistar og tísku, en var harðákveðin í að verða myndlistarkona. Draumurinn var að fara í Central Saint Martins í myndlistarnám, og um 19 ára aldurinn flutti ég til London. Ég vann í Top Shop á Oxford Circus í ár en náði ekki að fjármagna námið,“ segir Harpa.

En allt á sinn tíma. „Ég fór 26 ára í Listaháskólann að læra fatahönnun og fyrsta vörumerkið Starkiller varð til um það leyti. Þá vann ég hörðum höndum að Ziska, sem er einnig listamannsnafn mitt. Á sama tíma var ég í fullri vinnu við persónusköpun fyrir Eve Online í CCP og í búningagerð fyrir ýmis kvikmyndaverkefni. Árið 2014 varð MYRKA til og vörumerkið hefur vaxið hægt og lífrænt síðan þá.“

Rætur, baugar og bein

Harpa Einars var snemma listhneigð. „Sem krakki bjó ég til hina ýmsu furðuheima í huganum, gerði brúður og samdi leikrit. Fyrstu tískuteikningarnar urðu til um tólf ára aldurinn og á fjórtánda ári urðu fyrstu flíkurnar til. Náttúran, þjóðsögur og náttúrutrú hafa ætíð skipað stóran þátt í mínu lífi. Árið 2014 opnaði ég litla og óhefðbundna hönnunar- og listaverslun í Hafnarfirði, Baugar og bein (Skulls & Halos). Þetta var virkilega skemmtilegur tími sem ég notaði til að leita innávið og kanna hvar minn sanni fagurkeri bjó. Ég leitaði til baka í ræturnar og þann veruleika sem ég ólst upp við. Á þessum tíma var túrismi í verulegri aukningu og ég ákvað að finna leiðir til að gera fágaðan fatnað með áherslu á arfleifð og náttúru Íslands. Ég sýndi fyrstu fullkláruðu línuna, Völvu, á RFF (Reykjavík Fashion Festival) 2017. Línan samanstóð meðal annars af fallegum merino-peysum, silkiflauelskjólum með vísun í þjóðbúninginn, prentuðum kjólum, silkiklútum og þæfðum peysum. Ég færðist síðan meira úr hefðbundnum fatnaði yfir í „streetwear“, eða götutísku með boðskap, en hélt þó í hið íslenska og mystíska.“

Ný sýn

Leið Hörpu inn í tískuheiminn var bæði krefjandi og gefandi á sama tíma. „Ég hef kynnst ótrúlega mögnuðu fólki í gegnum mitt ferðalag og margir af mínum bestu vinum lifa og hrærast í heimi hönnunar og tísku. Það var til dæmis magnað að vera nemi hjá Threeasfour í NY. Þar upplifði ég tískuheiminn fyrir tíma snjallsíma og samfélagsmiðla. Stemningin var kynngimögnuð í borginni og ég kynntist skrautlegum einstaklingum sem margir hverjir eru enn í innsta hring. Einnig hef ég kynnst sjálfri mér, gengið á veggi og staðið upp aftur og aftur. Ég er einfari að eðlisfari og kýs oftast að vinna ein í mínu horni. En nú eru að verða breytingar þar á, sem ég er mjög þakklát fyrir og það eru spennandi tímar framundan með breyttu viðhorfi og nýrri sýn á sköpun mína.“

Síð-kapítalisminn hefur runnið sitt skeið og nú er tími til kominn að endurmeta og hefja nýja tíma. Á myndunum má sjá flíkur úr nýju línunni, „Rewilding“ FW21-22. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fatahönnuður í uppreisn

Harpa er óhrædd við að nýta hönnun sína sem tjáningarform, en „uppreisn“ er orð sem á sér sterkar rætur í hennar hugmyndaheimi. „Það má segja að ég hafi verið í uppreisn síðustu ár, því mér finnst ég hafa verið föst í veröld sem var ekki sönn og ég reyndi allt til að brjóta höftin af mér. Ég fæ innblástur víðs vegar að úr myndlist, tónlist, fortíð og framtíð, frá aktívistum, Z-kynslóðinni, fólki sem neitar að láta setja sig í box, sem og áferðinni og orkunni í landslaginu.“

Harpa bendir á að í íslensku orðabókinni sé tíska skilgreind svo: „Hún er siður, venja, breytileg eftir breytilegum smekk, ríkjandi um skemmri eða lengri tíma, einkum í klæðaburði og snyrtingu.“ Í námi sínu í LHÍ rannsakaði Harpa áhrif tónlistar og tíðaranda á fatnað, frá árinu 1950 til okkar tíma. „Ef við horfum á klæðaburð í sögulegu samhengi, þá lýsir hann alltaf tíðaranda hvers tímabils. Þetta breyttist svo eftir að götutískan varð til. Rokksenan átti gríðarstóran þátt í þeirri hugarfarsbreytingu sem átti sér stað og The Rolling Stones sáu til þess að götutískan var komin til að vera. Eftir tíma samfélagsmiðla og áhrifavalda finnst mér tískan oft vera yfirborðskennd og einfaldlega léleg. Orðið „tíska“ er frekar neikvætt í hugum margra, en það eru spennandi hlutir og breytingar til hins betra að gerast í tískuheiminum í dag. Ekki seinna vænna.“

Beygjum normið

„Ég elska að vinna með listafólki sem þorir að beygja normið. Í hverri hönnunarlínu geri ég nokkur sýningareintök (e. showpieces), sem eru sérstakar flíkur sem fara ekki í framleiðslu og enda oft í höndunum á tónlistarfólki. Hljómsveitin Hatari hefur komið mikið við sögu í mínu starfi enda eru þeir stórkostlegir listamenn með boðskap sem ég trúi á. Síð-kapítalisminn er vissulega að renna sitt skeið,“ segir Harpa og virðist spennt fyrir nýjum tímum innan tískuheimsins. Hún vill nota tískuna til að mennta og fræða og varpa ljósi á mannréttindi og náttúruvernd og um leið hanna fatnað fyrir hugsjóna- og framfarafólk.

„Í línu minni Rebels Lounge og BeAcause byrjaði ég til dæmis að vinna með aktívisma og senda út skilaboð sem mér fannst mikilvægt að koma áleiðis. Núna eru miklar breytingar að gerast í heiminum, hjólin eru farin að snúast og það er undir okkur komið að fara ekki aftur í sama, yfirborðskennda veruleikann. Við verðum að taka þau skref sem þarf til að gera samfélagslegar breytingar varanlegar. Hættum að láta neysluhyggjuna grafa okkur lifandi og flýja inn í falskan heim áhrifavalda og lyga. Verum til staðar fyrir unga fólkið okkar, sem er að sjúga í sig allt það sem er rangt í veröldinni. Það líður mörgum illa núna og við verðum að hlúa að okkur sjálfum, fólkinu okkar og standa með réttindum kvenna, litaðra, LGBTQ, barna, dýra og síðast en ekki síst með náttúrunni.“

Flíkurnar úr nýju línunni eru fágaðar úr náttúrulegum textíl.
Sigtryggur Ari

Löngunin til að snúa aftur til náttúrunnar

Nýja línan frá MYRKA heitir „Rewilding“ FW21-22, og er innblásin af lönguninni til að snúa aftur í náttúruna og lifa með henni, en ekki af henni. „Þetta er fáguð lína í náttúrulegum textíl og litavali. Kápur, jakkar, buxur, kjólar og fleira. Ég hef tekið götutískuna að mestu út, en þessi lína verður sú fágaðasta og vandaðasta hingað til. Ég er enn að reyna að fjármagna framleiðsluna en býst við að öll sýniseintök verði tilbúin í lok ágúst. Stefnan er að línan verði kynnt með pompi og prakt í byrjun október. Ég er ein af 500 hönnuðum sem voru valin í „Retail Revolution“ markaðsherferð Notjustalabel, og ég byrja að selja þar mjög fljótlega. COVID hefur vissulega sett strik í reikninginn hvað framleiðslugetu varðar, en um leið hefur þessi tími verið algjör vitundarvakning. Hraðinn hefur verið svo mikill undanfarið og þetta er fyrsta skiptið í mörg ár sem ég tek ekki þátt í RFF eða Hönnunarmars. Ég er búin að vera að taka til í sjálfri mér og MYRKA, endurmeta, endurhanna, laga og breyta og er full tilhlökkunar að deila með ykkur MYRKA „Rewilding“- línunni.“