Gríman er uppskeruhátíð íslenskra sviðslista, blanda af verðlaunahátíð og árshátíð. Endalaust má deila um þýðingu og merkingarbærni verðlauna í listum en eitt er víst að Gríman er kjörið tækifæri til að hampa því frábæra sviðslistafólki sem þjóðin á.

Tilnefningarnar til Grímunnar fóru um víðan völl þar sem Ríkharður III í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur í Borgarleikhúsinu stóð uppi með þær flestar, en fast á eftir kom Súper eftir Jón Gnarr í sviðsetningu Þjóðleikhússins. Loddarinn í leikstjórn Stefan Metz fékk einungis tvær tilnefningar, báðar fyrir leik, sorgleg niðurstaða fyrir eina bestu sýningu leikársins.

Breytingar hafa orðið á Grímunni síðastliðin ár, sumar jákvæðar, aðrar alls ekki. Stærsta breytingin er sú að núna eru allir flokkarnir tilkynntir í beinni útsendingu, það ganga allir jafnir til sviðs. Einnig er búið að klippa út aðalkynninn og þétta þannig útsendinguna. En fyrr má nú vera. Svo mikil áhersla var lögð á að standast tímatakmörk að bæði Vala Kristín Eiríksdóttir og Bára Sigfúsdóttir voru hreinlega básúnaðar af sviðinu þegar þær voru að tala um mikilvægi listformsins. Er ekki kominn tími til að Gríman fái listrænan stjórnanda? Einhvern sem stjórnar ekki bara útsendingunni heldur skipuleggur verðlaunaafhendinguna út frá listrænum sjónarmiðum.

Heildarmynd afhendingarinnar var mjög brotakennd. Sýningin byrjaði á góðri en illa útfærðri hugmynd. Útskriftarnemar LHÍ stóðu sig með prýði en áhorfendur fengu ekki að vita að atriðið var úr Mutter Courage eftir Brecht leikstýrt af Mörtu Nordal. Innslögin frá leikhúsunum virtust koma úr öllum áttum; upptökur úr sýningum, sviðsett í beinni eða heilu auglýsingarnar um komandi leikár. Myndbrotið frá Þjóðleikhúsinu var ekki einungis sérlega ófyndið og langt heldur líka smekklaust. Ef þetta átti að vera satíra þá var hún illskiljanleg, listina að setja saman leikár og sviðslistafólk þarf að virða.

Almennt voru niðurstöður Grímunefndarinnar hinar fínustu. Ríkharður III stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins með sex verðlaun; sýning ársins, Brynhildur hlaut verðlaunin sem besti leikstjórinn og Hjörtur Jóhann var valinn besti leikarinn. Sólveig Guðmundsdóttir hlaut síðan óvænt verðlaunin fyrir bestu leikkonu ársins, hún er vel að verðlaununum komin. Sömuleiðis var gaman að sjá Club Romantica eftir Friðgeir Einarsson hreppa verðlaun sem besta leikritið.

Hápunktur verðlaunanna var efalaust mögnuð ræða Þórhildar Þorleifsdóttir sem hlaut heiðursverðlaun Grímunnar. Hún á þennan heiður svo sannarlega skilið enda brautryðjandi á sviðinu sem og fyrirmynd fyrir ungar konur.

Gríman er ákveðin endurspeglun á íslenska sviðslistaheiminum, en hún er ansi bjöguð eins og er. Sviðslistasamband Íslands og RÚV þurfa að endurhugsa útsendingu og framsetningu Grímunnar frá grunni. Gríman á að sviðsetja og fagna öllu því góða sem íslenskar sviðslistir hafa fram að færa, bæði í orðum og gjörðum.