The Supremes hóf ferilinn árið 1959 í Detroit undir nafninu The Primettes. Stofnmeðlimir sveitarinnar voru Mary Wilson, Florence Ballard, Diana Ross og Betty McGlown.

Eftir að hafa sigrað hæfileikakeppni ákváðu þær að búa til plötu og beindu sjónum sínum að útgáfufyrirtækinu Motown. Ross bað nágranna sinn Smokey Robinson um hjálp við að koma sveitinni í áheyrnarprufu hjá Motown-stjórnandanum og lagasmiðnum Berry Gordy.

Gordy hreifst af sveitinni en bað þær að koma aftur eftir að þær hefðu lokið gagnfræðaskóla, vegna þess hve ungar þær voru.

Dentilegar í drögtum. MYND/GETTY

Stúlkurnar dóu ekki ráðalausar og gáfu út smáskífu með laginu Tears of Sorrow, á vegum útgáfufyrirtækisins Lu Pine Records, en viðtökurnar voru dræmar. Um svipað leyti trúlofaðist McGlown og hætti í kjölfarið í sveitinni og í stað hennar kom Barbara Martin.

Snemma árs 1961 lét Gordy loksins undan og bauð sveitinni samning, gegn því skilyrði að sveitin myndi breyta um nafn. Gordy lét Ballard fá lista yfir uppástungur en meðal þeirra voru: „The Darleens“, „The Sweet Ps“, „The Melodees“ og „The Jewelettes“. Á endanum valdi Ballard nafnið „The Supremes“. Vorið 1962 hætti Martin og varð Supremes þá að tríóinu goðsagnakennda.

Reffilegar með bindi. MYND/GETTY

Vaxandi velgengni

Sveitin gaf út sex smáskífur á árunum 1961-1963 en engin þeirra náði inn á topp 40 vinsældalista Billboard. Þetta varð til þess að farið var að kalla sveitina „No-Hit Supremes“ á göngum Motown. Á þessum tíma skiptust Ballard, Ross og Wilson á að syngja aðalröddina, en þrátt fyrir að Ballard hafi þótt hafa öflugustu röddina ákvað Gordy, síðla árs 1963, að Ross yrði aðalsöngkona sveitarinnar. Framan af voru helstu lagasmiðir sveitarinnar Gordy og Robinson, en í lok ársins 1963 byrjaði sveitin að flytja lög eftir bræðra- og lagahöfundateymið Holland-Dozier-Holland sem átti eftir að reynast mikið gæfuspor.

Sumarið 1964 kom lagið „Where Did Our Love Go?“ sem rataði beint á topp Billboard-vinsældalistans. Í kjölfarið kom hver slagarinn á fætur öðrum og náði sveitin þeim merka áfanga að ná fimm lögum í röð á toppinn, en lögin sem fylgdu voru „Baby Love“, „Come See About Me“, „Stop! In the Name of Love“ og „Back in My Arms Again“.

Sorgarsaga Ballard

En ekkert varir að eilífu og eftir því sem athyglin beindist meira að Ross varð Ballard stöðugt ósáttari við þróunina. Hún varð þunglynd, fór að drekka meira, mæta verr og jafnvel mæta svo drukkin að hún gat ekki komið fram. Vorið 1967 var Gordy búin að finna staðgengil fyrir Ballard, söngkonu að nafni Cindy Birdsong, og í kjölfarið bað hann Ballard að hætta í sveitinni af sjálfsdáðum.

Um sumarið breytti Gordy nafni sveitarinnar í Diana Ross & the Supremes sem ýtti frekar undir þrálátan orðróm þess efnis að Ross hygðist yfirgefa sveitina og hefja sólóferil, sem hún gerði svo árið 1970. Sveitin hélt áfram að koma fram, með tíðum meðlimabreytingum, til 1977, og var eini upphaflegi meðlimurinn Mary Wilson.

The Supremes klæddust oft nákvæmlega eins fötum og þá einna helst íburðarmiklum síðkjólum. MYND/GETTY

Ballard yfirgaf hljómsveitina formlega í febrúar 1968 og fékk eingreiðslu sem nam tæpum 140.000 dollurum. Hún fékk fljótlega samning hjá ABC Records, gaf út tvær smáskífur sem náðu ekki vinsældum og var samningnum slitið árið 1970. Ári síðar fór hún í mál gegn Motown sem hún tapaði og skömmu síðar sleit hún samvistir við eiginmann sinn, en samband þeirra var afar stormasamt. Ballard fór að drekka enn meira og fréttir bárust af því að hún hefði neyðst til að sækja um fjárhagsaðstoð. Á einhverjum tímapunkti bauð Wilson Ballard að ganga aftur til liðs við Supremes, en hún hafnaði boðinu.

Florence Ballard var einungis 32 ára þegar hún lést og átti þrjú börn.

Eftir að hafa svo lokið sex vikna áfengismeðferð reyndi hún að endurvekja tónlistarferilinn og kom fram í fyrsta skipti í fimm ár þann 25. júní 1975, í heimaborg sinni Detroit. Endurkoman reyndist skammlíf en þann 22. febrúar árið 1976 lést Ballard langt fyrir aldur fram af völdum hjartastopps.

Áhrifamikil arfleifð

Dapurleg örlög Ballard hafa verið mörgum hugleikin, þau varpa óneitanlega upp spurningum um stöðu kvenna í tónlist, og þá sérstaklega kvenna af afrískum uppruna, ásamt því að setja ákveðinn blett á sögu sveitarinnar.

En þrátt fyrir sorgarsögu Ballard skín sól The Supremes enn skært og er arfleifð sveitarinnar enn þann dag í dag áþreifanleg. Stelpusveitirnar (og annað tónlistarfólk) sem fylgdu á eftir næstu áratugina voru margar undir miklum áhrifum af The Supremes og velgengi Ross var slík að hún er talin ein áhrifamesta söngkona poppsögunnar.

Klæðaburður The Supremes var og er órjúfanlegur hluti af ímynd þeirra, en sveitin klæddist gjarnan nákvæmlega eins eða svipuðum fötum. Fötin voru af ýmsu tagi en áttu það flest sameiginlegt að endurspegla tíðarandann.

Töfrandi tríó í tökum. MYND/GETTY

Þær klæddust oft sams konar síðkjólum, skreytta gimsteinum með stóra, hangandi eyrnalokka. Þær voru alltaf óaðfinnanlega til fara, vel farðaðar og með hárið uppsett (eða hárkollur).

Einnig klæddust þær meðal annars jakkafötum, pilsum og stuttum kjólum. Þá voru yfirhafnirnar oft vandaðar kápur í anda sjöunda áratugarins.