Vökukonan í Hólavallgarði er bók sem geymir ljóð eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur. Aðalyrkisefnið er Guðrún Oddsdóttir, konan sem varð fyrst til að hljóta gröf í kirkjugarðinum og varð vökukona hans. Sólveig Ólafsdóttir skrifar formála og eftirmála bókarinnar.

„Ég vann þetta handrit, eða Vökuljóð eins og ég kallaði þau, þegar ég var í ritlist í Háskólanum. Ég vissi að Sólveig hafði verið að grúska í sögu Guðrúnar Oddsdóttur og sýndi henni ljóðin,“ segir Guðrún.

„Mér fannst bálkurinn svo stórkostlegur að hann yrði að koma út á bók og hafði samband við bókaforlagið Sölku og seldi forsvarskonum þess hugmyndina en þær vildu um leið að ég skrifaði formála og eftirmála,“ segir Sólveig.

Kona hans

Guðrún byrjaði ekki að fást við ljóðagerð að neinu ráði fyrr en hún byrjaði í ritlistarnáminu fyrir nokkrum árum. „Ljóð hafa alltaf heillað mig og ég hef alltaf lesið mikið af ljóðum og skrifað aðeins fyrir sjálfa mig eða fyrir skúffuna eins og það er kallað. „Ég hef alltaf verið hugfangin af kirkjugörðum sem eru magnaðir og ljóðrænir staðir,“ segir hún. „Mér fannst sagan um vökumanninn og vökumannsfyrirbærið magnað en Guðrún er vökukona Hólavallagarðs. Vökumaður er fyrsta manneskjan sem grafin er í nýjum kirkjugarði, eins og Guðrún var. Hún var grafin 1838 þegar garðurinn var vígður og um leið varð hlutverk hennar að taka á móti öllum sem á eftir henni komu og vaka yfir þeim.

Ljóðabálkur minn er byggður þannig upp að fyrsti hlutinn fjallar um Guðrúnu og komu hennar í garðinn. Miðjubálkurinn heitir Lífið í garðinum og þar heyrast raddir annarra kvenna í garðinum sem margar hverjar hafa einungis, þegar rýnt er í grafskriftir, titilinn „kona hans" líkt og það hafi verið eina hlutverk þeirra í lífinu. En þessar konur áttu sér án efa marga drauma, leyndarmál og sögur sem ég reyni að gera mér í hugarlund. Þriðji hlutinn fjallar um endalausa vöku Guðrúnar yfir öllum sem þarna hvíla. Ég hugsa ljóðin svolítið eins og minningabrot eða drauma þeirra sem sofa, þó svo að í tilfelli Guðrúnar eigi draumarnir sér stað í andvökunni.“

Breytt ára

Um hlutverk vökumannsins segir Sólveig: „Vökumannssagan kemur úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar og hann segir að þetta sé gömul íslensk sögn og tengir hana aðallega við kirkjugarðinn í Görðum á Álftanesi. Ég hef þá kenningu að þetta sé þýðingarvilla því vökumaður í hugmyndafræði Evrópu er sá sem er grafinn síðastur í garðinum, ekki sá sem er fyrstur grafinn. Samkvæmt þessum evrópsku þjóðsögum fær hann vökumannshlutverk og vakir yfir öllum í garðinum. Hann rotnar ekki og er annaðhvort í rauðum fötum eða grænum og á að vera ófrýnilegur. Vökumaðurinn í Garðakirkjugarði á að hafa verið grafinn úti í horni og það er ekki grafið nálægt honum. Svo þegar þetta gerist í kirkjugarðinum í Reykjavík og um konu er að ræða þá breytist áran og í staðinn fyrir að vera ófrýnileg verður hún allsherjar verndari.“

Gafst upp

En hver var Guðrún Oddsdóttir. Sólveig svarar því: „Guðrún Oddsdóttir var af rjómaliði íslensks aðals um aldamótin 1800. Eftir að hún yfirgaf föðurhúsin fékk hún starf sem vinnukona hjá Stefáni Stephensen og Mörtu Maríu konu hans og vann sig síðan upp virðingarstigann og gætti barna þeirra. Eftir dauða Mörtu Maríu giftist hún amtmanninum og fóstraði börn þeirra. Hún eignaðist síðan börn með Stefáni. Hún var mikil hannyrðakona og frumkvöðull í vefnaði, góður kokkur og stóð sig mjög vel í húsmóðurhlutverkinu. Eftir dauða Stefáns giftist hún aftur, Þórði Sveinbjörnssyni. Síðan gerist það að börn hennar fimm að tölu fara að deyja eitt af öðru. Þá er eins og hún hafi gefist upp. Hún lést eftir erfið veikindi sem tengdust lifrarsýki, 58 ára og þá orðin gömul kona.“

Guðrún og Sólveig segja að með þessari bók vilji þær halda til haga sögu kvennanna í garðinum sem margar eru nafnlausar og án sögu. „Í gegnum sögu Guðrúnar Oddsdóttur viljum við minnast allra þessara kvenna,“ segja þær.