Elenora Rós Georgesdóttir er aðeins 19 ára gömul og hefur þegar gefið út sína fyrstu uppskriftarbók sem ber heitið Bakað með Elenoru Rós sem hefur hlotið verðskuldaða athygli og er á metsölulista Eymundsson um þessar mundir. Hún er bakaranemi með mikla og einlæga ástríðu fyrir bakstri og starfar hjá Bláa lóninu við bakstur.

„Ég hef elskað að baka frá því að ég man eftir mér og hef fengið að blómstra á þessu sviði,“ segir Elenora Rós sem þegar hefur brætt hjörtu landsmanna með útgeislun sinni og uppskriftum.

Jólastelpa sem elskar jólabakstur

„Ég elska fátt jafn mikið og jólin. Ég á reyndar afmæli á Þorláksmessu svo ég er ekta jólabarn. En burt séð frá því þá elska ég skreytingarnar, hefðirnar, baksturinn, snjóinn og allt sem jólunum fylgir. Kannski er það vegna þess að ég ólst upp við mikla jólastemningu en ég er ávallt pínulítil jólastelpa í hjarta mínu sem elskar jólabaksturinn og allt sem honum fylgir.“

Framundan lærdómsrík og gefandi heimsókn í eldhúsið til Elenoru Rós sem enginn verður svikinn af í þættinum Matur og heimili á mánudagskvöld á Hringbraut.

Í tilefni aðventunnar sýnir Elanora Rós hvernig maður bakar jólabollakökur sem allir geta gert.