Í dag er Solla hætt í daglegum rekstri á Gló en sinnir ráðgjafarstörfum þar sem starf hennar felst meðal annars í því að búa til og þróa uppskriftir og vera viskubrunnur fyrir það starfsfólk sem þar situr nú við stjórnvölinn. Solla blómstrar sem aldrei fyrr í eldhúsinu og nýtur þess að elda með sínum nánustu samhliða því að næra líkama og sál.

Við fengum Sollu til að gefa lesendum uppskriftina að einum af sínum uppáhalds grænmetisréttum í tilefni janúar, gott er að njóta hans í upphafi árs. Einnig fengum við hana til að segja okkur aðeins frá mataræði sínu og því sem henni finnst skipta máli þegar kemur að því að velja hráefni í réttina sína.

Maturinn skiptir máli

Finnst þér skipta miklu máli hvað þú borðar þegar kemur að því að huga að orku og úthaldi?

„Ég finn mjög mikinn mun á mér bæði andlega og líkamlega eftir því hvað ég er að borða. Mér finnst ég geta stjórnað mikið betur orkunni og úthaldinu með mataræðinu og forðast mikið af einföldum kolvetnum og skyndibita.“

Á góðu mataræði í rúm 40 ár

Breytir þú mataræðinu í upphafi árs?

„Ég er búin að vera á mjög góðu mataræði í rúm 40 ár svo ég hef ekki haft þörf fyrir að fara í eitthvert átak eða breyta í byrjun árs. En ég skil vel að margir kjósi að huga að mataræðinu eftir jólin, sérstaklega ef fólk er búið að leyfa sér bæði þyngri og meiri mat en vanalega, margir eru að halda í hefðir og ég trúi að það sem fólk gerir einstaka sinnum geti bara verið huggulegt.“

Leyfir þú þér sæta hollustubita inn á milli?

„Ég leyfi mér alveg sæta hollustubita annað veifið, ég er reyndar heppin að hafa ekki mjög mikla þörf fyrir sætindi.“

Rauðrófu chili sin carne. Solla hefur einstaklega gaman af því að búa til ljúffenga grænmetisrétti.

Lífrænt og íslenskt hráefni

Finnst þér skipta máli hvaðan hráefnið kemur sem þú velur í réttina þína og neytir?

„Ég kýs að hafa hráefnið sem mest lífrænt og grænmetið sem mest íslenskt og lífrænt þegar það er hægt. Ég er alin upp við mikla meðvitund um að borða gott hráefni og er þakklát fyrir það,“ segir hún.

Solla hefur einstaklega gaman af því að búa til ljúffenga grænmetisrétti sem bragð er af og töfraði fram þennan girnilega rétt fyrir lesendur sem á vel við á köldum vetrardegi í janúarmánuði.

Rauðrófu chili sin carne

1 msk. olía

1 laukur

3 hvítlauksrif

2-3 msk. tómatpúrra

1 ferskur chili, smátt saxaður

1 glas grilluð paprika (150 g)

1 krukka bakaðar baunir (lífrænar frá Himneskt)

400 g rauðrófur, soðnar og rifnar (hægt að nota forsoðnar)

400 g passata

1 msk. sítrónusafi

1 msk. chili

1 ½ tsk. cumin

½ tsk. reykt paprika

½ tsk. oregano

1 tsk. sjávarsalt

pipar

Hitið olíu í potti og mýkið lauk og hvítlauk í um 2-4 mínútur, eða þar til laukurinn byrjar að gyllast. Bætið tómatpúrru og kryddi út í og hrærið vel saman. Sigtið olíuna frá paprikunni og skerið paprikuna í minni bita og setjið út í. Rífið soðnu rauðrófurnar á grófu rifjárni og setjið út í. Bætið passata tómötunum út í ásamt sítrónusafa. Látið sjóða við vægan hita í 8-10 mínútur. Berið fram með avókadó, vegan sýrðum rjóma og ferskum kóríander. Sumir kjósa líka að hafa hrísgrjón með. Einnig hægt að bera fram í taco skeljum eða tortillum.