Carbonara er klassískur pastaréttur frá Ítalíu og þvert á það sem margir halda, þá er ekki ein einasta ögn af rjóma í réttinum. Í staðinn er gerð dásamlega rjómakennd þeyta úr pastavatni, eggi og osti. Hefðbundið er að nota verkað feitt grísakjöt eins og guanciale eða pancetta, en einnig er algengt að skipta því út fyrir beikon.

Carbonara pasta

375 g pasta, til dæmis linguini, spagetti, eða annað

150 g rifinn parmesanostur, Pecorino romano virkar líka vel

3 egg

Slatti af nýmöluðum svörtum pipar

200 g pancetta, guanciale eða beikon skorið niður í 0,5 cm teninga

Valkvætt: 100 g sveppir, niðurskornir að eigin vali og um 2 dl frosnar grænar baunir

Skerðu pancetta niður í um 0,5 cm litla bita og settu á þurra pönnu á lágan hita. Leyfðu fitunni að bráðna og steiktu uns bitarnir eru brúnaðir. Helltu fitunni af í ílát. Hana má nota til að steikja sveppina og grænerturnar eða annað í framtíðinni. Í þessu skrefi er einnig sniðugt að steikja sveppina og skella grænertunum út á pönnuna á síðustu stundu svo þær þiðni en haldi græna litnum.

Rífðu niður ostinn á fína hluta rifjárnsins og hrærðu saman með þremur eggjum og nýmöluðum pipar. Sjóddu pasta samkvæmt pakkningu. Helltu pastavatninu af en geymdu um 3 dl af því til að nota í samsetningunni.

Nokkrum mínútum áður en pastað er soðið skaltu hita upp pancetta, sveppina og erturnar ef það hefur kólnað. Eftir að þú hefur sigtað pastað er það aftur sett í pottinn sem það var soðið í. Helltu ostahrærunni út í á meðan pastað er enn heitt. Hrærðu saman samstundis svo eggin eldist ekki of hratt. Skvettu nokkrum matskeiðum af pastavatni út í til að þynna sósuna. Settu svo pancetta út í ásamt sveppum og grænertum. Smakkið til með salti, pipar og parmesanosti. Gott er að rífa niður auka parmesanost yfir rétt áður en rétturinn er borinn fram og strá ítalskri saxaðri steinselju yfir.

Guðlast bjargar afgöngunum

Margir telja það nær ómögulegt að hita upp afganga af carbonara pasta þar sem eggin í sósunni eiga það til að harðna og sósan missir mjúkleika sinn. Þar kemur rjóminn hins vegar til bjargar. Pastaafgangarnir eru þá settir á heita pönnuna ásamt smá rjómaslettu. Pastað hitnar og rjóminn sýður og þykknar og mýkir upp sósuna án þess að þynna hana út um of. Hins vegar má þó ekki kalla réttinn „carbonara“ lengur, að minnsta kosti ekki í viðveru Ítala, því slíkt væri guðlast.