María Gomez, matar- og lífsstílsbloggari, er ein af þeim sem hrífst af haustinu og öllu sem því fylgir, sérstaklega þegar kemur að nýjum afurðum tengdum uppskeru sumarsins. Þá kemst hún á flug í eldhúsinu. Nýjasta uppáhald Maríu er hjónabandssæla sem hún tengir mikið við haustið því þá er sultugerð í fullum blóma.

Nýjasta uppáhald Maríu er hjónabandssæla sem hún tengir mikið við haustið því þá er sultugerð í fullum blóma.

„Hjónabandssæla er eitt af því sem minnir mig mikið á haustin, eflaust vegna þess að þá eru margir búnir að gera rabarbarasultu úr uppskeru sumarsins,“ segir María, sem nýtur þess að töfra fram ljúffengt bakkelsi og sætabrauð fyrir fjölskylduna með kaffinu.

Hjónabandssælan hennar Maríu gleður bæði auga og munn, María ber ávallt kræsingarnar svo fallega á borð, sem eykur enn á ljúfa bragðupplifun.

„Vinur sonar míns kom hingað um daginn, færandi hendi með dýrðlega rabarbarasultu sem þau höfðu verið að sulta heima hjá honum. Strax fékk ég þá hugmynd að gera úr henni hjónabandssælu. Mig langaði að gera mína eigin útgáfu sem væri bæði ofur auðveld og ofsalega góð.

Hjónabandssælan er með rökum þéttum botni, nóg af sultu á milli og stökkri mylsnu ofan á og svo auðveld að gera, alveg eins og ég vil hafa það. Ég held að markmiðið hafi náðst.“

Hjónabandssæla Maríu Gomez er með rökum, þéttum botni, nóg af sultu og stökkri mylsnu.

Hjónabandssælan hennar Maríu Gomez

4 dl tröllahafrar

3 dl fínt spelt eða hveiti

1 dl hrásykur

2 dl púðursykur

1 tsk. matarsódi

1 tsk. fínt borðsalt

190 g smjör

1 egg

400 g rabarbarasulta

2-3 tsk. hrásykur til að dreifa yfir fyrir bakstur

Skerið kalt smjör í teninga og setjið með öllum hráefnunum nema egginu saman í matvinnsluvél eða blandara og hrærið þar til er orðið að grófri mylsnu.

Bætið þá egginu út í og ýtið nokkrum sinnum á pulse-takkann þar til allt er svona frekar gróf mylsna.

Smyrjið eldfast mót að innan með smjöri og þjappið helmingnum af deiginu á botninn með því að nota puttana til þess. Smyrjið svo sultunni jafnt yfir allan botninn.

Takið að lokum restina af deiginu og myljið jafnt yfir sultuna og dreifið eins og 2-3 teskeiðum af hrásykri jafnt í þunnu lagi yfir allt (gefur toppnum stökkleika). Bakið á 190 C° á blæstri eða 200 C° án blásturs í 35-40 mínútur.

Hægt er að fylgjast með blogginu hennar Maríu á síðunni hennar paz.is og á Instagramsíðunni @paz.is

Nammi namm, verði ykkur að góðu að nóta gómsætrar hjónabandssælu á fyrstu dögum haustsins.