Súkkulaðigerðin hefur blómstrað og vaxið síðustu ár og Kjartan hefur notið þess að búa til nýjar súkkulaðiblöndur og ísrétti. En nýjasta viðbót Omnom er ísbúð þar sem súkkulaði og ísinn gleðja bæði augu og bragðlauka. Kjartan er þekktur fyrir að töfra fram skemmtileg brögð og samsetningar þar sem súkkulaðið leikur aðalhlutverkið og því áhugavert að skyggnast í smiðju hans.

Ávallt haft mikla ástríðu fyrir matargerð

Kjartan er fæddur í Vestmannaeyjum og ólst upp þar fyrstu árin áður en fjölskyldan fluttist upp á land. „Ég lærði matreiðslu á sínum tíma á Hótel Loftleiðum og starfaði svo í kjölfarið á ýmsum veitingastöðum í Reykjavík og nokkur sumur í veiðihúsum,“ segir Kjartan en um tíma bjó hann erlendis. Meðal annars í Noregi, Svíþjóð og í Luxemborg þar sem hann starfaði á Michelin veitingastað. „Ég hef alltaf frá því ég man eftir mér haft mikla ástríðu fyrir matargerð og öllu því tengdu og nýt þess að fá að starfa við mitt aðaláhugamál.“

Páskaeggið stór hluti af hefðinni

Heldur þú í matarhefðir og venjur á páskunum?

„Það hefur alltaf verið lambahryggur á borðum hjá fjölskyldunni, þó ég muni eftir einhverjum tilraunum með kalkún sem var svo aldrei reynt aftur. Páskaeggið er eins og hjá flestum stór hluti af hefðinni og held ég enn í hana og þá sérstaklega á síðari árum hef ég búið til mitt eigið alveg frá grunni. Á yngri árum var ratleikur með systkinum í kringum páskaeggið aðalsprotið.“

Áttu þér þitt uppáhalds páskaeggi?

„Nei, í raun og veru ekki. Fyrir mér þarf það bara að vera búið til úr góðu súkkulaði, helst þá mjólkursúkkulaði og ekki skemmir ef það er lagt aðeins í skreytingu á því fyrir augað.“

Glæsilegt páskaterta.

Föndrar páskaegg og kanínur í vinnunni

Þegar kemur að því að föndra fyrir páskana er það að sjálfsögðu ekki spurning um annað en að páskaeggin koma sterkt inn. „Aðallega þá páskaegg og kanínur í vinnunni. Hjá Omnom höfum við haldið í þann sið að allt starfsfólkið okkar kemur saman með fjölskyldum og vinum og saman málum við og föndrum saman súkkulaðiegg og kanínur. Stundum þegar tími hefur gefist er jafnvel hent í nokkra skreytta konfektmola.“

Sambræðingur af gulrótarköku og ostaköku

Margir eiga sína uppáhalds eftirrétti sem tilheyra páskunum og sumum fylgja uppskriftir langt aftur í fjölskyldur meðan aðrir koma með nýjungar. „Ég fór einmitt að pæla í þessu um daginn, fyrir utan páskaeggið, þá eru ekki til margir klassískir eftirréttir fyrir páskana, en núna fyrir páskana gerði ég ís í samstarfi með Mr. Carrots´, sem er páskakanína Omnom, sem er sambræðingur af gulrótarköku og ostaköku, spurning hvort hann gæti verið eitthvað árlegt og væri gaman að deila með ykkur.“

Hugmyndin var að af því Mr. Carrots´er mikill áhugamaður um gulrótarkökur, þá langaði honum að prufa að setja það fram sem bakaða ostaköku. Við bjuggum til hefðbundin hafrakexbotn og bætum í hann karamellaðuðum pekanhnetum. Kakan sjálf er svo rjómaostur, gulrótarsafi, mandarínusafi og krydduð með kanil, múskat og negul.“

Kakan ber einfaldlega heitið Gulrótarostakaka Mr. Carrots.

Enginn verður svikinn af þessari dásemd.

Gulrótarostaka Mr. Carrots

Brennd Basque Ostakaka

500 g rjómaostur

150 g sykur

3 egg

250 ml rjómi

3 g salt

2 g vanillidropar

25 g hveiti

Byrjið á því að hita ofninn við 200°C. Smyrjið klemmukökuform með háum hliðum og sem er hægt að opna og leggið bökunarpappír inn í þannig að passi vel (gott er að krumpa pappírinn saman og láta renna volgt vatn á til að mýkja hann).

Þeytið rjómaostinn og sykur og bætið við eggjum, einu í einu. Bætið við rjóma, salti og vanillu og passið að ofþeyta ekki. Sigtið hveiti saman við og blandið vel saman. Hellið í form og bakið þar til kakan verður dökk að ofan eða í um það bil 50-60 mínútur. Gæti verið minni tími, fer svoldið eftir ofninum. Ekki vera hrædd við að hún líti út fyrir að vera brenna, það er allt hluti af þessu. Ef þér finnst hún vera að brúnast full hratt fyrstu mínuturnar, má lækka hitann í 180°C.

Gulrótar-mandarínusósa

400 g hvítt súkkulaði, við notum Spiced White frá Omnom

250 g gulrótarsafi

75 g mandarínusafi

15 g sítrónusafi

5 g brúnkökukrydd

Bræðið súkkulaðið og haldið volgu

Setjið alla safana saman í pott, ásamt kryddi og hitið að suðumarki

Hellið yfir súkkulaðið og blandið vel saman

Sigtið og leyfið að kólna

Pekanhnetu nougatine

200 g sykur

400 g pekanhnetur

2 g salt

500 g hafrakex, mulið

Setjið sykur og pekanhnetur í pott sem passar rúmlega. Setjið á háa stillingu og leyfið sykrinum að byrja brúnast og hrærið með sleif þar til hneturnar eru orðnar vel karamellaðar og glansandi. Þetta tekur smá tíma en er vel þess virði. Kryddið með saltinu og sturtið á bakka með bökunarpappír og leyfið alveg að kólna. Brjótið nougatine upp og setjið í litlum skömmtum í matvinnslu vél og malið gróft, passið að mala ekki of lengi, þá getur það breyst mauk. Blandið saman við mulna hafrakexið.

Samsetningin

Takið kökuna úr forminu og fjarlægið pappírinn og setjið á kökudisk

Nuddið pekanhnetu-mulningnum á hliðarnar og berið fram með gulrótar-mandarínusósunni. Berið fram með páskalegu ívafi og njótið.