Berglind Hreiðars, köku- og matarbloggari, sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar, er annáluð fyrir glæsilegar afmælisveislur og hefur nú smitað dóttur sína af veislugleðinni og metnaðinum.

Dóttir Berglindar, Elín Heiða, átti 12 ára afmæli í vor og hélt upp á það með langþráðri afmælisveislu sem var algjörlega eftir hennar höfði.

Elín Heiða fór leikandi létt með að hrista fram úr erminni himneska bláa og hvíta afmælisveislu, eins og myndirnar bera með sér. Kökuskreytingar og umgjörð veislunnar endurspegla listræna hæfileika dótturinnar. Mamman fékk ekkert að gera í eldhúsinu að þessu sinni.

Elín Heiða hafði mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig hún vildi að afmælisveislan yrði. Gestirnir voru sannarlega ánægðir.Myndir/AÐSENDAR

Sá um allan baksturinn sjálf

„Elín Heiða er afar sjálfstæð, ung dama og sannarlega með skoðanir á hlutunum. Ég hef hingað til fengið ítarlegar séróskir varðandi afmælisveislur og hvernig allt skuli vera og hvað skal baka.

Hún er orðin ótrúlega dugleg að baka og dúllast í eldhúsinu og í þetta skiptið vildi hún fá að gera allt sjálf og ég var stranglega bönnuð í eldhúsinu, fékk bara að sjá um að versla inn fyrir hana og síðan að aðstoða hana við að leggja á borðið,“ segir Berglind.

Elskar vanilluköku

Hún sá um að útbúa allar kökur sjálf og skipuleggja leiki. „Hún elskar Tacos svo ég fékk reyndar að sjá um að elda risaskammt af slíku fyrir þær vinkonurnar með öllu tilheyrandi þar sem henni þótti það ekki eins spennandi og baksturinn,“ segir Berglind og hlær.

Elín Heiða elskar vanilluköku og Betty Crocker-vanillukrem svo afmæliskakan var föndruð úr slíku í bland við súkkulaðiköku eftir hennar höfði, sett á þrjár hæðir og skreytt með mini Oreo og bláu Skittles. Hún gerði til viðbótar við afmæliskökuna hvítar Rice Krispies-kökur, Cheerioskökur og dýfði sykurpúðum í litað súkkulaði. „Síðan elskar hún Oreo með hvítu súkkulaði svo það ásamt venjulegu Oreo og alls konar blátt, hvítt og dökkt nammi fór í skálar og krúsir um allt borðið.“

Litaþemað í bláu og hvítu

Litir afmælisveislunnar voru blár og hvítur og komu mjög vel út.

„Litaþemað byrjaði þannig að ég keypti allt þetta afmælisdót fyrir tveimur árum í Target í Bandaríkjunum og ætlaði að nota það fyrir afmæli systur hennar sem síðan vildi velja annað á þeim tíma. Dótið hefur því bara verið inni í skáp og við ákváðum að nýta það. Hún ákvað síðan veitingar, nammi og annað út frá þessum litum.“

Það var mikið stuð í afmælinu.

Lukkunúmerið afmælisskiltið

Elín Heiða æfir körfubolta með Aftureldingu og er númer 19 á treyjunni sinni. Þær mæðgur fengu Hlutprent til að sérhanna afmælisskilti fyrir hana í stíl við þemað og auðvitað með Jordan og tölunni 19. „Elín Heiða hafði smíðað lukkuhjól í skólanum og ákvað að nota það í veislunni og límdi með málningarteipi texta á hvern flöt sem sagði til um hvað væri í verðlaun. Það var allt frá sleikjó eða candyfloss að penna eða „Diamond painting“ spjaldi sem er afar vinsælt þessa dagana.

Það var einnig töludans og „pöbbkviss“ þar sem ég var búin að útbúa nokkrar spurningar og þær voru tvær og tvær saman í liði.“ Það fengu síðan allir lítinn „Gúddí-bag“ með sér heim með smá nammi og dúlleríi. Afmælisbarnið var í skýjunum með útkomuna og reynslunni ríkari fyrir næstu veislu.

Hægt er að finna allar uppskriftirnar á síðunni www.gotteri.is, eins og uppskriftirnar af Cheerioskökum, hvítu Rice Krispies og vanillukökunni svo dæmi séu tekin.

Fyrir 12 ára stelpur er veisla að fá nammikrítar og Rice Crispies-bollakökur á afmælisborðið.
Kökurnar fengu líka á sig smá bláan lit. Þannig náði þemað um allt.
Falleg krukka með sælgæti.
Pinnar með sykurpúðum.
Sannarlega var úrvalið alls konar á veisluborðinu.
Glösin eru nýstárleg. Berglind notar háar krukkur og papparör.
Allir fengu óvæntan glaðning með sér heim í fallegum umbúðum.