Hildur Guðnadóttir tónskáld segist ekki alveg vera búin að átta sig á því að hún hafi verið tilnefnd til Óskarsverðlauna. Hildur varð í dag annars Íslendingurinn til að fá til­nefningu fyrir bestu frum­sömdu tón­listina í kvikmynd en hún var eina konan í ár til að fá tilnefningu í umræddum flokki. Jóhann Jóhanns­son var til­nefndur fyrir The Theory of E­veryt­hing árið 2015 og Si­cario árið 2016.

Tilnefninguna fékk hún nokkrum klukkutímum eftir að hún hlaut Critics' Choice verðlaunin fyrir tónlistina í Joker.

„Þakka ykkur fyrir hamingjuóskirnar og ástarkveðjurnar undanfarna vikuna! Ég er ekki alveg búin að átta mig á þessu,“ skrifar Hildur í færslu sem hún birti á Twitter í dag.

Sannkallað Hildarfár á sér stað í Bandaríkjunum og má segja að Hildur hafi rækilega slegið í gegn fyrir tónlist hennar í kvikmyndinni Joker annars vegar og í HBO þáttunum Chernobyl hins vegar.

Hildur hlaut sín fyrstu Emmy verðlaun í september fyrir tónlistina í Chernobyl og varð þann 6. janúar síðastliðinn annar Íslendingurinn til að vinna Golden Globe verðlaun sem hún fékk fyrir tónlistina í Joker.

Þá varð hún fyrsta konan í 19 ár til að vinna verðlaun fyrir bestu frumsömdu tónlistina og einnig er hún fyrsta konan til að vinna þau ein síns liðs