Hildur Guðnadóttir varð í nótt fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun og er óhætt að segja að öll þjóðin fagni með henni og þessum stórmerkilega árangri. Hildur tók við verðlaununum af leikkonunum Sigourney Weaver, Brie Larson og Gal Gadot en það var í fyrsta sinn í sögu Óskarsverðlaunanna kvenkyns hljómsveitarstjóri sem stýrði hljómsveitinni þegar tilnefningarnar voru kynntar.

Það var því vel við hæfi að Hildur skyldi hreppa verðlaunin að þessu sinni en hún er einungis sjöunda konan sem tilnefnd hefur verið fyrir frumsamda tónlist og sú fjórða til að sigra.

„Til stelpnanna, til kvennanna, til mæðranna, til dætranna, sem heyra í tónlistinni stigmagnast að innan, vinsamlegast látið í ykkur heyra. Við þurfum að heyra raddir ykkar,“ sagði Hildur þegar hún tók við styttunni og uppskar hún mikið lófaklapp fyrir.

Þakkaði fjölskyldunni, leikstjóranum, og Bradley Cooper

Hildur þakkaði þeim sem einnig voru tilnefndir og sagði það hafa verið heiður að kynnast þeim. Þá þakkaði hún leikstjóra myndarinnar, Todd Phillips, fyrir að hafa hlustað á sig og að hafa leyft sér að taka þátt í gerð myndarinnar. „Og Bradley, að sjálfsögðu! Takk Bradley,“ bætti Hildur við og hló en Bradley Cooper var einn framleiðandi myndarinnar.

„Fjölskyldan mín, fallega fjölskyldan mín, sem er með mér hér í kvöld. Ótrúlegur eigimaður minn; Sam. Ástin mín, minn besti vinur, hitt sett mitt af eyrum. Ég væri týnd án þín. Móðir mín og sonur minn Kári, ég sé ykkur ekki en ég elska ykkur svo mikið,“ sagði Hildur í ræðunni á meðan hún brosti út að eyrum.

Myndband af verðlaunaafhendingunni og þakkarræðunni má sjá hér fyrir neðan: