Sigur­ganga Hildar Guðna­dóttur hefur vakið at­hygli um allan heim en líkt og flestum ætti að vera kunnugt vann hún til Óskars­verð­launa þann 9. febrúar fyrir tón­listina í kvik­myndinni Joker. Þá hafði hún áður unnið til Golden Globe, BAFTA, Emmy, og Gram­my-verð­launa, meðal annars.

Það er þó ekki aðeins almenningur sem hefur tekið eftir velgengni Hildar og fagnað með henni heldur hefur hún myndað góð tengsl við fræga fólkið í Hollywood. Til að mynda þakkaði hún leikaranum Bradley Cooper í þakkarræðu sinni á Óskarnum og voru það stórleikkonurnar Sigourney Weaver, Brie Larson og Gal Gadot sem afhentu Hildi styttuna og samglöddust henni.

„Þetta er orðið frekar eðlilegt en bottom line-ið er auðvitað bara að þetta er bara fólk og þó maður sjái það í sjónvarpi og bíómyndum þá er þetta bara yndislegt fólk og listamenn sem eru búnir að vera að vinna í tugi ára að listinni sinni og eru langflesti bara yndislegir,“ sagði Hildur í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku aðspurð um hvernig væri að vera í kringum fræga fólkið. „Það er dásamleg orka í fólki hérna.“

Fyrir­tækið White Bear, sem sér um al­manna­tengsl tón­skálda, hefur fylgst náið með vel­gengni Hildar en fyrir­tækið sér meðal annars um al­manna­tengsl Hildar. Á Face­book síðu fyrir­tækisins má nú finna áður ó­séðar myndir frá Óskars­verð­launa­há­tiðinni en þar sést Hildur með goð­sögnum á borð við Elton John og Tom Hanks.

Myndirnar frá White Bear má sjá hér fyrir neðan:

Hildur ásamt Tom Hanks. Hanks var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni A Beautiful Day in the Neighborhood.
Mynd/White Bear PR
Hildur ásamt Sir Elton John. Elton hlaut Óskarsverðlaun í flokki frumsaminna laga fyrir lagið I'm Gonna Love Me Again úr kvikmyndinni Rocketman.
Mynd/White Bear PR
Hildur ásamt leikkonunni Renée Zellweger. Zellweger hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni Judy þar sem hún fór með aðalhlutverkið.
Mynd/White Bear PR
Hildur ásamt leikaranum Bradley Cooper. Cooper var einn framleiðandi Joker og er hann sagður hafa átt stóran hlut í mótun myndarinnar.
Mynd/White Bear PR
Hildur og eiginmaður hennar, Sam Slater, ásamt Thomas Newman og eiginkonu hans, Ann Marie Zirbes. Newman var einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni 1917.
Mynd/White Bear PR
Hildur ásamt leikstjóra Joker, Todd Phillips, og leikaranum Joaquin Phoenix. Joker var tilnefnd til bestu kvikmyndarinnar og Phoenix hlaut Óskarsverðlaun fyrir leik sinn í myndinni.
Mynd/White Bear PR