Tón­skáldið Hildur Guðna­dóttir ræddi á dögunum um tón­listina í kvik­myndinni Joker í ítar­legu við­tali við breska ríkis­út­varpið, BBC, en líkt og flestum er kunnugt hefur Hildur unnið til fjölda verð­launa fyrir tón­listina. Að­fara­nótt mánu­dags kemur í ljós hvort hún verði fyrsti Ís­lendingurinn til að hreppa Óskars­verð­laun.

„Ég varð ást­fangin af myndinni og samdi helstu stefin áður en þau byrjuðu að taka upp, svo þau gátu notað tón­listina og ég gat verið hluti af því,“ sagði Hildur í sam­tali við BBC en að hennar sögn var það leik­stjóri myndarinnar, Todd Phillips, sem fékk hana til að semja tón­listina.

Myrkari hliðin birtist í tónlistinni

Hún greinir frá því að henni hafi fundist við hæfi, að þar sem myndin er í raun saga einnar mann­eskju, að að­eins eitt hljóð­færi væri í aðal­hlut­verki í gegnum myndina og varð það selló sem varð fyrir valinu. Að hennar sögn mótaðist leikur Joaquin Pheonix að mörgu leiti af tón­listinni en Pheonix fer með aðal­hlut­verkið í myndinni og er hann einnig til­nefndur til Óskars­verð­launa.

„Ég nýt þess að vinna í myrkari hliðinni í kvik­myndum. Minn per­sónu­leiki er frekar glað­vær, ég nýt þess að hlægja, en allir eiga bæði myrka og léttari hlið. Sem betur fer fyrir fjöl­skyldu mína er sú léttari aðal hliðin en sú myrkari birtist í tón­listinni minni,“ segir Hildur að­spurð um hvernig per­sónu­leiki hennar hefur á­hrif á tón­listina.

Sögulegur árangur

Hildur er að­eins sjöunda konan til að vera til­nefnd til Óskars­verð­launa fyrir frum­samda tón­list og ef hún vinnur verður hún fjórða kona í 84 ára sögu verð­launanna til að vinna verð­launin í flokknum. „Ég er fyrsta konan í langan tíma til að vera til­nefnd og vinna á þennan hátt svo það hefur verið mikið til um­ræðu,“ sagði Hildur um sigur­göngu sína sem hefur vakið at­hygli um allan heim.

„Aug­ljós­lega gætum við verið með fleiri konur, að sjálf­sögðu, en það sem mér finnst magnað er að eftir mína veg­ferð síðustu mánuði hefur mikil um­ræða farið af stað,“ sagði Hildur en hún segir leik­stjóra í auknum mæli leitast eftir kven­kyns tón­skáldum. „Það hefur í raun ekki gerst áður.“

„Ég er bara svo á­nægð að hafa verið hluti af því að opna um­ræðuna um kven­kyns tón­skáld og vonandi munu ungar konur fá inn­blástur til að láta vaða og sjá starfið sem mögu­leika. Það er farið að gerast.“