Lista­maðurinn Hildi­gunnur Birgis­dóttir hefur verið valin full­trúi Ís­lands á sex­tugasta Fen­eyja­tví­æringnum í mynd­list 2024.

Tví­æringurinn er einn mikil­vægasti vett­vangur sam­tíma­listar á heims­vísu og er þátt­taka í honum á­litin mikill heiður fyrir þann mynd­listar­mann sem valinn er. Ís­land hefur sent full­trúa á Fen­eyja­tví­æringinn síðan 1960 og hafa margir fremstu lista­menn þjóðarinnar sýnt þar, meðal annars Jóhannes Kjarval, Ragnar Kjartans­son, Hrafn­hildur Arnar­dóttir, Rúrí og nú síðast Sigurður Guð­jóns­son. Mynd­listar­mið­stöð, áður nefnd Kynningar­mið­stöð ís­lenskrar mynd­listar, hefur um­sjón með ís­lenska skálanum fyrir hönd menningar- og við­skipta­ráðu­neytisins. Í til­kynningu frá Mynd­listar­mið­stöð segir:

„Á marg­laga ferli sínum hefur Hildi­gunnur rann­sakað hug­myndir okkar um fegurð, nota­gildi, sam­hengi hlutanna og hvetur á­horf­andann til að efast um jafn­vægið á milli skynjunar og raun­veru­leika. Hildi­gunnur skoðar oft fá­fengi­lega hluti líkt og takka lykla­borðs, plast­klemmur og úða­brúsa, og er hver hlutur valinn út frá ein­fald­leika sínum eða til­vist. Með því að setja fram ósk­áld­lega hluti í nýjum efnum og stærðum undir­strikar Hildi­gunnur kunnug­lega eigin­leika þeirra en sam­tímis því dregur hún nota­gildi þeirra í efa. Bjögunin undir­strikar skúlptúrískt gildi hinna upp­runa­legu hluta og fagnar fagur­fræði þess sem fæstir gefa gaum.“

Hildi­gunnur Birgis­dóttir (f. 1980) býr og starfar í Reykja­vík. Á síðasta ári voru verk hennar sýnd í Lista­safni Reykja­víkur, lista­safninu GES-2 í Moskvu og H2H í Aþenu. Verk hennar má meðal annars finna í safn­eign Lista­safns Ís­lands, Lista­safns Reykja­víkur, Ný­lista­safnsins og European Patent Office.

Tvö af nýlegum verkum Hildigunnar af sýningu hennar Friður í i8 gallerí.
Mynd/Aðsend