Listamaðurinn Hildigunnur Birgisdóttir hefur verið valin fulltrúi Íslands á sextugasta Feneyjatvíæringnum í myndlist 2024.
Tvíæringurinn er einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu og er þátttaka í honum álitin mikill heiður fyrir þann myndlistarmann sem valinn er. Ísland hefur sent fulltrúa á Feneyjatvíæringinn síðan 1960 og hafa margir fremstu listamenn þjóðarinnar sýnt þar, meðal annars Jóhannes Kjarval, Ragnar Kjartansson, Hrafnhildur Arnardóttir, Rúrí og nú síðast Sigurður Guðjónsson. Myndlistarmiðstöð, áður nefnd Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Í tilkynningu frá Myndlistarmiðstöð segir:
„Á marglaga ferli sínum hefur Hildigunnur rannsakað hugmyndir okkar um fegurð, notagildi, samhengi hlutanna og hvetur áhorfandann til að efast um jafnvægið á milli skynjunar og raunveruleika. Hildigunnur skoðar oft fáfengilega hluti líkt og takka lyklaborðs, plastklemmur og úðabrúsa, og er hver hlutur valinn út frá einfaldleika sínum eða tilvist. Með því að setja fram óskáldlega hluti í nýjum efnum og stærðum undirstrikar Hildigunnur kunnuglega eiginleika þeirra en samtímis því dregur hún notagildi þeirra í efa. Bjögunin undirstrikar skúlptúrískt gildi hinna upprunalegu hluta og fagnar fagurfræði þess sem fæstir gefa gaum.“
Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) býr og starfar í Reykjavík. Á síðasta ári voru verk hennar sýnd í Listasafni Reykjavíkur, listasafninu GES-2 í Moskvu og H2H í Aþenu. Verk hennar má meðal annars finna í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Nýlistasafnsins og European Patent Office.
